135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[18:32]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum skýrslu hæstv. iðnaðarráðherra um raforkumálefni og hér hefur verið farið vítt yfir sviðið. Það er hægt að koma mjög víða við en ég kýs á þeim stutta tíma sem ég hef að einbeita mér að lokakafla skýrslunnar, 6. kaflanum, sem fjallar um rannsóknir á orkulindum og undirbúning á virkjun þeirra til raforkuvinnslu.

En áður en ég fer yfir þann kafla, hæstv. forseti, langar mig til að segja að mér finnst afar áberandi í ræðum þeirra þingmanna sem hér hafa talað hversu ótrúlega fókuserað fólk er á það að vatnsauðlindin okkar og háhitinn, jarðhitinn okkar, jarðhitaauðlindin séu einungis auðlindir þegar og ef þær verða virkjaðar til raforkuframleiðslu. Mér þykir skorta mjög í þessa umræðu annan fókus. Vatnsauðlindin og jarðhitaauðlindin geta líka verið auðlindir án þess að þær verði virkjaðar til raforkuframleiðslu. Við verðum alltaf í þessari umræðu að vega og meta verndargildi og nýtingargildi. Annaðhvort tökum við ákvörðun um að nýta þessar auðlindir sem orkuauðlindir eða þá að við nýtum þær sem náttúruperlur. Við verðum alltaf að gera okkur grein fyrir því að við þurfum að skoða báðar hliðar peningsins bæði út frá umhverfisverndarsjónarmiðum og hagrænum sjónarmiðum líka. Mönnum er tamt að láta undir höfuð leggjast að viðurkenna að vernd auðlindanna, vatnsauðlindarinnar og jarðhitaauðlindarinnar skapar líka tekjur og störf. Ég sakna þess í þessari umræðu að ekki skuli tekinn sá víði sjónvinkill sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns – framboðs viljum hafa í þessari umræðu.

Þó svo að hæstv. iðnaðarráðherra sé orkumálaráðherra þá verður hann að átta sig á því að auðlindirnar sem undir hann heyra sem orkuauðlindir heyra líka undir umhverfisráðherra sem náttúruverndarauðlindir. Hann má því aldrei láta eins og hann sé einráður um þessar auðlindir, um það hvort þær verða virkjaðar eða ekki. Þetta veit hæstv. iðnaðarráðherra. Það er kannski ekki honum að kenna að umræðan fari öll inn á þetta spor. En ég vil bara taka þetta fram svona til þess að undirstrika sjónarmið mín í þessum efnum.

Það er mjög nærtækt þegar fjallað er um raforkukerfið að þá sjáum við í hnotskurn þetta sem ég er að tala um þegar farið er að tala um flutningsgetu kerfisins. Hér hefur verið nefnd hálendislína. Hvað þýðir hálendislína? Það þýðir háspennulína með stórum möstrum yfir Sprengisand og/eða Ódáðahraun. Það er meira en að segja það að leggja hálendislínu. Með því að tala um hálendislínu erum við að tala um að ógna stórum verndarsvæðum í íslenskri náttúru, svæðum sem nú þegar eru vernduð. Það þyrfti að aflétta vernd á stórum svæðum ef við ætluðum að leggja hálendislínu á borð við þá sem álversfurstarnir vilja að reist verði. Við megum því ekki kokgleypa þá hugmynd eða tala hér eins og það sé bara sjálfsagt mál að orkukerfið verði styrkt eða flutningsgeta kerfisins verði styrkt með hálendislínu. Þegar við tölum um styrkingu raforkukerfisins þá skulum við bara segja það af eða á hvort við séum hlynnt hálendislínu eða ekki, hvort við viljum reisa háspennumöstur í Ódáðahrauni eða ekki. Hæstv. ráðherra á eftir kannski að segja okkur það hér í lokaræðu sinni hvernig Samfylkingin lítur á þessi mál. Er Samfylkingin hlynnt eða andvíg hálendislínu? Ég horfi hér í augun á hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni sem ég veit alveg hvaða skoðun hefur á þessu. En ég veit ekki hvernig sú sem við hliðina á honum stendur, hv. formaður iðnaðarnefndar Katrín Júlíusdóttir, lítur á þetta mál. (Gripið fram í.) Þetta er eitt af því sem við verðum að hafa í huga og á heima í þessari umræðu.

Orkustefna og orkunýting er að mörgu leyti flókið mál. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs aðhyllumst sjálfbæra orkustefnu sem felur það í sér að hér eigi að leita leiða til þess að afleggja jarðefnaeldsneyti, draga að minnsta kosti mjög úr notkun þess og við teljum að það hafi verið fyrir löngu síðan tilefni til að gera áætlun um slíkt. Ég hvet hæstv. iðnaðarráðherra til að þess að ganga í það mál á hvern hátt Ísland geti í alvöru orðið vistvænt samfélag með tilliti til orkunýtingar. Þá þarf að gera áætlun um orkusparnað og orkunýtni sem mörg nágrannalönd okkar hafa gert árum saman. Þegar við íslenskir þingmenn sem störfum á vettvangi Norðurlandaráðs fjöllum um orkunýtingu og orkunýtni á þeim vettvangi þá bítum við okkur oft í hnúana og skömmumst okkar fyrir það hversu mikil orkusóun viðgengst á Íslandi. Þegar félagar okkar, þingmenn á Norðurlöndunum, koma til Íslands og nefna það við okkur í spjalli að þegar farið er í heitu pottana á Íslandi þá sé heita vatnið bara látið renna sisvona út úr pottunum og ofan í jörðina, hvað þetta eigi eiginlega að þýða. Og við áttum okkur þá kannski á því þegar okkur er bent á það að auðvitað mundu þeir sem hafa gert áætlun um að nýta orkuna til fulls, þá orku sem auðlindirnar gefa, aldrei láta svona gerast. Ég brýni því hæstv. iðnaðarráðherra í þessum efnum, þ.e. að láta gera áætlun um það hvernig við getum aukið orkunýtni, stundað orkusparnað og dregið úr notkun jarðefnaeldsneytisins. Það hangir saman við áætlun um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Kannski er þetta allt saman komið í gang hjá hæstv. iðnaðarráðherra en við skulum alla vega undirstrika hér brýninguna.

Þegar hins vegar eru teknar ákvarðanir um að virkja orkulindirnar til raforkuframleiðslu þá verðum við líka að átta okkur á því að það þarf að taka þá ákvörðun með þá framleiðslu í huga sem sú raforka er ætluð til. Það er bjargföst trú mín og okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og var eftir því sem mér sýndist í kosningabaráttunni trú Samfylkingarinnar að það væri komið nóg af raforkusölu til stóriðju þ.e. til álvera. Í sjálfu sér ber þessi skýrsla hæstv. iðnaðarráðherra með sér að einhvers staðar lúri sú hugsun í iðnaðarráðuneytinu því eins og ég gaf til kynna í andsvari við hæstv. ráðherra áðan er ekki gert ráð fyrir í þeim orkuspám sem hér getur að líta neina stóriðjuuppbyggingu eða nein álver utan álversins á Reyðarfirði. Þess vegna er eðlilegt að maður spyrji hver stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum sé líka þegar við í umræðunni áðan, utandagskrárumræðunni, fengum að heyra álit hæstv. fjármálaráðherra á uppbyggingu og raforkusölu til stóriðju. Þá var hæstv. fjármálaráðherra bara með þrjú álver þarna í pípunum, þar af Þorlákshöfn sem ég veit að hæstv. iðnaðarráðherra hefur ekki látið sér detta í hug að nefna, sennilega ekki við nokkurn mann eftir að hann tók við embætti iðnaðarráðherra enda veit hann sem er að hann situr í stóli iðnaðarráðherra í krafti þeirrar stefnu Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni að það yrði stóriðjustopp. En trúverðugleiki þessarar ríkisstjórnar er ekki nægur á meðan að ráðherrarnir tala svona austur og vestur.

Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan segja nokkur orð um djúpborunarverkefnið sem gerð eru skil í 6. kafla skýrslunnar. Menn verða að átta sig á því að ekki er hægt að tala eins og hv. formaður iðnaðarnefndar gerði hér áðan, eins og þetta sé fugl í hendi, því það er það ekki. Djúpborunarverkefnið er fugl í skógi. Það kemur fram þegar rýnt er í texta skýrslunnar hversu illa hefur gengið að finna leið til að bora svona djúpt, þ.e. þann fjóra og hálfa til fimm kílómetra sem menn ætla sér á endanum að reyna. En það hefur komið í ljós að borholan á Reykjanesi sem átti að fara þetta langt niður verður ekki notuð. Aðstæður þar reyndust óviðunandi. Síðan hafa menn verið að reyna við Kröflu og núna er ljóst að áhöld eru um það hvernig þessu verkefni verður lokið. Svo vil ég benda fólki á að athuga þann gríðarlega kostnað sem er við djúpborunarverkefnið. Ætla menn að leika sér að því að bora þrjár holur sem kosta kannski 2 milljarða þegar á heildina er litið hver hola, 6 milljarða kannski tæpa ef við reiknum með að þrjár djúpborunarholur fari í fullan kostnað, 6 milljarða til þess að taka áhættuna á því hvort hægt verði að ná meiri orku upp úr djúpborunarverkefni en núna liggur fyrir? (Forseti hringir.) Og í hvað ætla menn svo að nota þá raforku? Í mengandi stóriðju? Ekki ef ég fæ að ráða.