135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[18:49]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þörf er á því að gera áætlun um styrkingu dreifikerfisins. Það þurfum við að gera en við getum ekki farið í það án þess að horfa á umhverfisþáttinn. Það er alveg sama hvar það er, hvort sem það er lína yfir hálendið eða línur annars staðar.

Já, ráðumst í styrkingu dreifikerfisins okkar en gerum það eins og sannir náttúruverndarsinnar mundu gera, eins og þeir mundu gera sem átta sig á því hvers virði ósnortin náttúra Íslands er. Það kann að vera að með því sjónarmiði verði hlutirnir dýrari. Náttúruvernd kostar peninga en náttúruvernd skilar líka peningum þannig að ef beggja sjónarmiða er gætt — það verður ekki þó gert með þessu sjónarmiði sem mér hefur fundist vera allt of ríkjandi hér, að orkusjónarmið og sjónarmið orkufyrirtækjanna og þeirra sem vilja kaupa raforkuna sé alltaf ofan á. Þá skulum við tala saman á þeim nótum sem hægt er og gera það þá af skynsemi og með fullri virðingu fyrir náttúrunni og umhverfinu, meðvituð um að það telur líka í efnahagsreikningnum.