135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[18:52]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann vel að vera að ég hafi verið fullneikvæð og örugglega hef ég verið það að mati hæstv. iðnaðarráðherra í garð djúpborunarverkefnisins. En þegar við horfum á hvað það er sem keyrir fólk áfram í djúpborunarverkefninu þá er það nokkuð sem ég kalla orkugræðgi. Ég vil fyrst spara orku, ég vil fyrst gera áætlun um það hvernig við búum til meiri orku í kerfinu okkar. Hvernig tryggjum við að öll orkan okkar sé nýtt út í hörgul? Mér finnst það vera forgangsmál miklu frekar en reyna að ná í þá gríðarlegu orku sem þarna er í iðrum jarðar. Til hvers ætlar hæstv. iðnaðarráðherra að nota hana? Til að geta boðið hingað fleiri stóriðjufyrirtækjum? Mér finnst þetta ekki nógu göfugt. Þess vegna er ég neikvæð. Ég rifja upp það sem ábyrgir aðilar úr þessum geira, sem kunna að fást við djúpborunarverkefni, sögðu við okkur í nefndarstarfi — ég var í auðlindanefnd, einni af mörgum sem starfað hefur hér, sem skilaði af sér 2005 ef ég man rétt — þeir sögðu: Enn þá getum við ekki sagt hvort við fáum upp vökva. Enn þá getum við ekki sagt hvort þetta gengur upp, hvort borinn annaðhvort bráðnar eða springur í andlitið á okkur. (Gripið fram í.) Það eru kannski tvö ár eða ekki það síðan þetta var sagt og ég veit að það hefur ekki mikið breyst annað en að borholurnar á Reykjanesi falla saman þannig að ég segi: Þetta eru gríðarlegir fjármunir sem hæstv. iðnaðarráðherra er tilbúinn til að eyða í djúpborunarverkefnið. Hvað mundum við fá í þjóðarbúið ef við settum þessa fjármuni í náttúruvernd? Ef við settum þá í að byggja vísindasetur við Mývatn fyrir 100 alþjóðlega vísindamenn eða stofna jöklaþjóðgarð á hálendinu, þjóðgarð fjögurra jökla? Hvað mundum við fá til baka í formi þjóðartekna ef við settum þessa sömu fjármusni í náttúruverndina? Ég þori að fullyrða að það yrði ekki minna, (Gripið fram í.) það yrði jafnvel meira.