135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[18:56]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála hæstv. iðnaðarráðherra í því að jarðhitinn er auðvitað hluti af þeirri nauðsyn sem er til staðar í veröldinni að fá upp eitthvert sjálfbært orkukerfi í hinum vestræna heimi og veröldinni allri. Jarðhitinn á auðvitað að vera hluti af því. Hins vegar verðum við að átta okkur á því að það er ekki alveg áhættulaust og það er heldur ekki losunarlaust að virkja jarðhitann.

Einhvers staðar á borðinu mínu er ég með svar frá hæstv. umhverfisráðherra um það hversu mikið er losað af gróðurhúsalofttegundum við jarðhitaboranir og það er alveg gríðarlegt magn. Það eru einhver hundruð þúsunda tonna sem losuð eru út í andrúmsloftið við þær holur sem búið er að bora nýverið uppi á Hellisheiði. Við lesum það í blöðunum að það falli á silfur sem aldrei fyrr á höfuðborgarsvæðinu. Við skulum átta okkur á því að ekki er allt sem sýnist. Það er talað um arsenikmengun við strendur Þingvallavatns og hvað lesum við um kvikasilfursmengun í urriðanum í Þingvallavatni, sem er sérstakt áhugamál hæstv. iðnaðarráðherra? Kann að vera að ástæðan fyrir því að aukið kvikasilfursmagn mælist í urriðanum í Þingvallavatni sé sú að í Nesjavallavirkjun er ekki niðurdæling heldur fer heita vatnið, sem kemur í afrennsli virkjunarinnar, beint út í náttúruna? Fellir hæstv. iðnaðarráðherra sig við þetta? Fellir hæstv. iðnaðarráðherra sig við þá staðreynd að þegar verið er að virkja jarðvarmasvæðin okkar þá eru einungis um 10% af þeirri orku sem upp kemur nýtanleg í raforkuframleiðslu? Þegar við erum mettuð af hitaveituþörfinni þá eru um það bil 90% af orkunni sem fara í niðurdælingu sem við vitum ekki enn þá hvort heppnast. Þetta er auðvitað ekki ásættanlegt. Ég er alveg sátt við að rannsaka jarðvarmann en ég vil ekki gera þetta svo einhliða að við svo gott sem sleppum því að ræða möguleikana sem við gætum verið með til staðar ef við vernduðum þessi svæði.