135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[18:59]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Því miður missti ég af hluta af þessari umræðu vegna þess að ég þurfti að bregða mér á annan fund en það sem ég heyrði af henni í dag var áhugavert. Það sem mig langar sérstaklega til að ræða er sú staða sem við erum í eftir að við breyttum raforkulögunum sem, eins og allir muna væntanlega, átti ekki að valda mikilli kostnaðaraukningu fyrir þá sem nota raforkuna. Ef ég man rétt voru þau orð sem þá voru viðhöfð að raforkuverð mundi einungis hækka um fáeinar krónur eða örfá prósent, eitt til tvö eða kannski þrjú.

Staðreyndin er hins vegar sú að breytingin hefur víða orðið mikið meiri og hún hefur einkum bitnað á dreifbýlinu, á dreifbýlistöxtunum þar sem íbúar eru færri en ákveðin skilgreining miðar við. Því miður hafa dreifbýlisbúar búið við það að t.d. hefur orkuverð til húshitunar á sumum svæðum hækkað á bilinu 25–35%. Það samræmist auðvitað ekki því markmiði sem menn settu sér þegar unnið var að raforkulögunum á sínum tíma. Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi aukið niðurgreiðslur dálítið hefur það ekki dugað til að laga þennan kostnað á nýjan leik til samræmis við það sem áður var og nægir í því sambandi að benda á töflur í þessu ágæta riti, skýrslu hæstv. iðnaðarráðherra, sem hér er verið að ræða í dag, um raforkumálefni almennt.

Það vekur líka athygli, hæstv. forseti, að í skýrslunni er sagt frá því að hér á landi þar sem átti að komast á virk samkeppni þar sem menn gætu valið sér söluaðila á raforku virkar hún bara alls ekki. Samkvæmt þessari skýrslu skipta hér á landi aðeins 0,35% orkukaupenda um orkusala eða viðskiptaaðila en svo við notum Svíþjóð til samanburðar er hlutfallið þar tæplega 8%. Ekki þekki ég nákvæmlega hvernig markaðurinn er uppbyggður í Svíþjóð en ég veit þó að Svíþjóð er land þar sem búsetuskilyrði íbúa eru mjög mismunandi, þ.e. milli íbúa á dreifbýlum landshlutunum og á þéttbýlustu svæðunum, og eiga það þar af leiðandi sammerkt með okkur hér. Við búum við þá staðreynd, vil ég leyfa mér að fullyrða, hæstv. forseti, að þegar orkan í hinum dreifðu byggðarlögum hefur hækkað þetta mikið hefur það alls ekki orðið til þess að efla búsetuna á viðkomandi svæðum eða styrkja hana, þvert á móti hefur það frekar unnið gegn því markmiði okkar að reyna að viðhalda og efla byggð í landinu eða tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu eins og segir í einhverjum frægum lögum sem við höfum verið að reyna að vinna eftir á undanförnum árum.

Ég hef miklar áhyggjur, hæstv. forseti, af því að svo fjölmörg atriði skuli vera með þeim hætti að þau veiki byggðina í landinu, veiki búsetuskilyrðin, ekki bara núna í atvinnulegu tilliti heldur einnig í kostnaðarlegu tilliti. Samt vitum við að að stórum hluta er verið að selja innlenda orku á mjög lágu verði til stóriðjunnar. Þar er auðvitað um gríðarleg magnkaup að ræða og kannski eru þau viðskipti á öðrum grundvelli og ekki hægt að bera þau algjörlega saman en það stingur samt virkilega í augu hversu mikill munur er á og einkum að það skuli draga í sundur með þéttbýlisstöðunum og dreifbýlisstöðunum að því er varðar orkukaupin. Það var eins og ég gat um í upphafi máls míns, hæstv. forseti, ekki markmið raforkulaganna að þannig færi það.

Þess vegna vil ég gera það að aðalmáli mínu í þessari stuttu ræðu, hæstv. forseti, að beina þeirri eindregnu ósk til hæstv. núverandi iðnaðarráðherra og byggðamálaráðherra að á þessa þætti verði horft á nýjan hátt og að ríkisstjórnin leitist við að bæta búsetuskilyrðin, m.a. með því að horfa til niðurgreiðslna á dreifingarkostnaði í dreifbýli og þar verða menn einfaldlega að horfa á staðreyndir málsins, það er ekki á bætandi eins og horfir víða á landsbyggðinni.

Síðan er auðvitað athyglisvert, eins og birtist í skýrslunni á bls. 53, að ákveðnir landshlutar búa við mjög lítið orkuöryggi miðað við það sem almennt gerist. Það er auðvitað sérstaklega sláandi að því er varðar Orkubú Vestfjarða en þar dettur orkan oftast niður og jafnframt dettur hún lengst niður þar eða allt að þrjár klukkustundir, samkvæmt því sem hér er sagt. Við vitum að dreifikerfið á hálendi Vestfjarða er staðsett á landshluta þar sem eru mikil veður og menn sjá stundum tugi staura brotna í einu áhlaupsveðri, það er því ekki mjög auðvelt við að eiga að þurfa að fara yfir há fjöll með raforkulínurnar en væntanlega stendur það nú til bóta. Væntanlega fáum við í framtíðinni göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og þá ætti að vera auðvelt að gera ráð fyrir því að í gegnum þau göng væri hægt að tengja Orkubú Vestfjarða eða að Orkubú Vestfjarða gæti tengt Mjólkárvirkjun í gegnum þau jarðgöng en jarðgöng undir Breiðadals- og Botnsheiði höfum við nú þegar.

Það er því spurning hvað menn geta leyft sér að gera í þeim málum að því er varðar orkuöryggið þó að því sé ekki að leyna að á Vestfjörðum er mikið til af varaafli í dísilstöðvum og menn mega ekki gleyma því. Það vekur samt athygli hversu langan tíma virðist taka að koma orkunni á og spurning er hvernig má bæta úr því. Er það ef til vill svo að þrátt fyrir að víða sé varaafl skorti menn til starfa akkúrat á þeim stað til að setja það í gang? Þurfa þeir t.d. að ferðast frá Ísafirði til þess að setja viðkomandi rafstöð í gang? Það er ýmislegt svona sem þarf að skoða og ég geri mér auðvitað grein fyrir því að það fylgir því kostnaður fyrir Orkubú Vestfjarða að hafa meiri viðbragðsflýti en spurningin er: Getur ríkið komið að því með einhverjum hætti varðandi orkuöryggi? En alveg sérstaklega: Getur ríkið komið að því að minnka þann mismun sem er varðandi notkun orkunnar og kostnað hennar fyrir það fólk sem býr í hinum dreifðu byggðum landsins, bæði á Vestfjörðum og annars staðar? Það er ekki við það unandi, hæstv. forseti, að það skuli draga svo í sundur í dreifbýlinu, sem er reyndin, í kjölfar lagasetningarinnar frá 2003.

Við vitum það, hæstv. forseti, að á Vestfjörðum er hluti neytendanna með 23–35% hærra orkuverð en er í þéttbýlisstöðunum. Það er m.a. vegna þess að viðmiðunartalan sem notuð er til þess að greiða stuðning við raforkunotkun hefur verið færð niður og ég beini því hér í lokin, hæstv. forseti, til hæstv. ráðherra að þessi mál verði skoðuð gaumgæfilega. Nógu erfið er búsetan við núverandi kosti víða á landsbyggðinni.