135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[19:18]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Umræðan í dag hefur verið býsna fróðleg. Ég hef fylgst rækilega með henni. Hún byggist á skýrslu hæstv. iðnaðarráðherra Össurar Skarphéðinssonar um raforkumálefni. Fram kemur að hún er unnin af sérfræðingum Orkustofnunar og Landsnets en iðnaðarráðuneytið hefur umsjón með skýrslunni og hæstv. ráðherra sem að sjálfsögðu er ábyrgur fyrir henni ásamt ríkisstjórninni.

Í umræðunni hefur verið fjallað um málin í víðum skilningi. Menn hafa rætt um stefnuna almennt og síðan staldrað við einstök verkefni. Það er sláandi hve mismunandi pólitískar áherslur hafa komið fram við þessa umræðu þótt við eigum jafnframt margt sameiginlegt. Þannig er það rétt hjá hv. þm. Ólöfu Nordal að öllum er okkur annt um land okkar. Hitt er svo staðreynd að við viljum ganga mislangt í því að vernda það sem við teljum náttúruperlur og misjafnt er á hvaða forsendum við teljum að þeim sé fórnandi.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum ríka áherslu á náttúruvernd í pólitík okkar og göngum ugglaust lengra í þeim efnum en aðrir stjórnmálaflokkar á Alþingi, einnig hvað varðar hið efnahagslega mat sem við leggjum á stóriðjuframkvæmdir. Við höfum meiri efasemdir um að stóriðjan, ekki síst áliðnaðurinn, skili þeim virðisauka í þjóðarbúið sem ýmsir aðrir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar ætla.

Við höfum skoðað útreikninga í þeim efnum og horft til þess að samkvæmt mati sérfræðinga er innlend kostnaðarþátttaka í álframleiðslunni miklu minni en gerist í ýmsum öðrum atvinnugreinum. Um 30–35% þegar álið er annars vegar en 80% þegar litið er til sjávarútvegs, ekki síst með það í huga að atvinnutækin þar eru í innlendu eignarhaldi, og 70% þegar um er að ræða ferðaþjónustu. Þetta veldur því að við erum varkárari þegar kemur að því að nýta stóriðju sem atvinnukost. Þetta skýrir hvers vegna við viljum mörg hver fara hægar í sakirnar varðandi orkufrekan iðnað og þá sérstaklega stóriðjuna.

Það hefur líka verið farið yfir aðra þætti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór yfir það á mjög fróðlegan hátt hve takmörkuð okkar orka er þegar til langs tíma er litið og hve vel við þurfum að vanda okkur við nýtingu hennar. Við skulum ekki gleyma því að þegar stóriðjan er annars vegar þá bindum við orkuna til margra áratuga. Það er ekkert svo ýkja mikið sem við höfum til ráðstöfunar. Orkuframleiðslan hefur tvöfaldast frá árinu 1993 eða 1994 samkvæmt því sem fram kemur í þessari skýrslu. Það stefnir í enn meiri orkuframleiðslu, ekki síst ef áform og villtustu draumar stóriðjusinna verða að veruleika með álverum í Helguvík, á Bakka, í Þorlákshöfn og hugsanlega víðar í landinu. Þetta eru þættir sem við þurfum að sjálfsögðu að hyggja að.

Menn hafa og mismunandi sýn á hvaða skipulagsform í raforkugeiranum séu heppilegust og skili mestum árangri. Mér þótti hv. þm. Ólöf Nordal fara ágætlega yfir þann þátt. Hún vísaði í reynslu innan Evrópusambandsins hvað þetta snertir, til þess að í Danmörku, eins og kemur fram reyndar í skýrslunni, er markaðurinn afar langt frá því að vera virkur þegar litið er til dreifingar á raforku. Ef ég man er það einna síst þar. Voru það ekki 1,5%? Það var mest í Noregi, komið upp í 11,5%, enda voru það Norðmenn sem riðu á vaðið með því að létta hömlum af 1990 og opna markaðinn að fullu árið 1997.

Engu að síður kvarta Norðmenn yfir því að markaðslögmálin hafi ekki virkað í þeim mæli sem að var stefnt. Ég las í norskum fjölmiðlum í fyrravor að þetta væri sofandahætti norskra neytenda að kenna. En staðreyndin er sú að svona er það alls staðar í Evrópu. Þetta fyrirkomulag hefur ekki reynst ganga upp. Menn hafa fetað sig út á markaðinn með tilskipunum allar götur frá árinu 1996. Fyrsta tilskipunin var sett undir árslok þá og síðan hafa þær komið hver á fætur annarri árið 2001, 2003. Síðan hafa menn byggt breytingar á löggjöf á þessum tilskipunum. Við opnum markaðinn árið 2006 og flýttum því um ár. Áður var ráðgert að gera það árið 2007. Hér kemur fram í skýrslunni að markaðurinn er afar óvirkur, eða 0,35%.

Hv. þm. Ólöf Nordal sagði að hún teldi að hin raunverulega samkeppni framtíðarinnar, ef hún yrði að veruleika, muni byggjast á framleiðendum orkunnar, að þar yrði samkeppnin virk í framtíðinni. Ef ég skildi hana rétt væri það hugsanlega með mismunandi framleiðslumáta, að þar mætti vænta einhverrar samkeppni.

Þá spyr ég, með hliðsjón af öllum þessum staðreyndum, að það kunni að vera svo að það sé framleiðslumátinn en ekki endilega fyrirtækið sem hefur starfsemina með höndum sem þarna skiptir máli: Getur verið að við eigum frekar að virkja það sem við Evrópumenn höfum virkjað á umliðnum áratugum, samvinnuna, að hún sé vænlegri til árangurs en samkeppnin? Hún hefur reynst Íslendingum vel, samvinnan. Að vinna saman. Mér finnst að við eigum að gæta okkur á að gerast ekki svo ídeológísk, ekki svo hugfangin af hugmyndafræði, að við neitum að taka tillit til reynslunnar. Ef reynslan sýnir okkur að módelið gangi ekki upp þá eigum við að fara á aðrar brautir. Það er líka rétt sem kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að jafnframt því sem í ljós kemur að samkeppnin skilar ekki árangri þá eykst samruni og fákeppni.

Við fengum fréttir um það í sumar að samkeppnisyfirvöld í Evrópu stefna gasfyrirtækjunum fyrir að brjóta evrópsk samkeppnislög. Þetta er enn eitt dæmið um að þetta módel, að hugsjónin um raforkumarkað gengur ekki upp, skilar ekki árangri. Eigum við ekki að endurmeta stöðuna með það að markmiði að færa þróunina í þann farveg sem hefur reynst okkur vel, samvinnu, að vinna saman? Það hefur reynst best og skilar okkur bestum árangri.

Við þekkjum samkeppni á ýmsum sviðum, t.d. þegar við förum og fyllum á bílinn. Það eru nokkur olíufyrirtæki sem keppa hatrammlega. Að vísu er samkeppnin ekki fyrst og fremst í því að bjóða upp á mismunandi verðlag, heldur hversu dugleg þau eru við gróðurvernd og landrækt. Eigum við ekki að reyna af vakna af þessari frjálshyggjumartröð, endurmeta stöðuna og halda inn á nýjar brautir?