135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[19:48]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég er betri maður en Ögmundur. Í sjálfu sér held ég, og er reyndar alveg viss um það, að Ögmundur sé alveg ágætur maður. Kynni mín af honum sem einstaklingi á þessari stuttu þingsetu minni eru góð en skoðanir okkar fara ekki alveg saman.

Ég er ekki að velta því fyrir mér í þessum ræðustól að leysa orkuþörf heimsins. Ég er fyrst og fremst að leggja á það áherslu að við leitum leiða til að stöðva þá byggðaþróun sem hér hefur verið og nýtum til þess þær náttúruauðlindir sem okkur er búnar í þessu landi. Að við nýtum þær til að byggja upp öflugt atvinnulíf og byggja það upp á þeim stöðum sem þurfa á því að halda. Um það snýst umræðan í mínum huga. Hvort það er álver — vinstri grænir og hv. þm. Ögmundur Jónasson tala alltaf um álver eins og óhreinu börnin hennar Evu. Álver eru ágætur iðnaður. Ég get verið fyllilega sammála hv. þingmanni um það að við skulum leita fjölbreyttari leiða og ég hef komið inn á það í ræðu minni. Við skulum leita fjölbreyttari tækifæra. Hæstv. iðnaðarráðherra kom inn á það í ræðu sinni fyrr í dag að margir væru að skoða Ísland sem kost til að koma hér og líta á orkuna í samvinnu við okkur og skapa öflugt atvinnulíf. Það er það sem málið snýst um í mínum huga. Að fórna náttúruperlum á altari stóriðju, það er voðalega ljótt að segja þetta.

Ég sagði í ræðu minni áðan: Við skulum gera þetta af sem mestri virðingu fyrir náttúrunni og það er ekki stefna okkar sjálfstæðismanna að fara fram af offorsi. En það er klárlega ekki stefna okkar að hafa stöðnun hér með þeim skelfilegu afleiðingum sem það hefur í för með sér.