135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

raforkumálefni.

311. mál
[19:55]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Til að liðka fyrir þingstörfum mun ég einungis koma upp einu sinni í andsvar af því að mér skilst að það eigi að hætta núna um áttaleytið. En ég get ekki orða bundist, mig langar að leiðrétta eitt sem kom fram í ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Ég deili mjög miklu af þeim skoðunum sem hann setti fram í ræðu sinni um orkumál. En hann sagði að við ættum að tala þannig að fólk fengi trú á okkur og því vil ég gjarnan leiðrétta það sem kom fram í máli hans þegar hann gerði grín að hv. þm. Guðna Ágústssyni og föður hans í sambandi við jafnréttismál, sem eru auðvitað allt annað mál. Þar kom enn einu sinni fram gamli eldavélarbrandarinn og ég vil halda því til haga að það er ekki rétt sem hv. þingmaður fór með hér. Hv. þm. Guðni Ágústsson lét þessi orð ekki falla, aldrei nokkurn tíma, heldur var þetta hermt upp á hann, af öðrum þingmanni reyndar. Ekki er rétt með þetta farið. Ég vil líka minna hv. þingmann á að Framsóknarflokkurinn er fyrsti flokkurinn sem hefur tryggt jafnrétti í ríkisstjórn, hann var með þrjá af sex ráðherrum kvenkyns og geri aðrir flokkar betur. Við stóðum líka að fæðingarorlofinu fyrir feður, geri aðrir flokkar betur, það var undir forustu okkar sem það var.

Ég vil minna hv. þm. Jón Gunnarsson á að konur hafa átt mjög erfitt uppdráttar í Sjálfstæðisflokknum. Ein kona er nú ráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn, einungis ein. Sjálfstæðisflokkurinn gat heldur ekki komið sér saman um að kona tæki við sem næsti borgarstjóri þrátt fyrir að hún sé í öðru sæti á eftir Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni. Af hverju var það ekki hægt? Konur njóta greinilega ekki trausts í Sjálfstæðisflokknum. Ég vildi minna hv. þingmann á þetta og vildi gjarnan koma upp og leiðrétta orð hans af því að ég tel að það sé mikilvægt að við höldum sannleikanum til haga, menn passi sig á því að vera ekki að kasta steinum úr glerhúsi. Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi aldeilis að bæta sig í jafnréttismálunum.