135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

skattamál.

[13:34]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs í dag til að gera að umtalsefni skattamál, ekki síst í ljósi þeirrar hörðu andstöðu sem virtist birtast gagnvart skattalækkunaráformum ríkisstjórnarinnar í niðurstöðum flokksstjórnarfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um síðustu helgi.

Það má segja að varla geti með skýrari hætti birst sá ágreiningur sem er milli ríkisstjórnarinnar annars vegar og VG hins vegar en í viðhorfi til skattalækkana á fyrirtæki. Ríkisstjórnin hefur gefið út yfirlýsingu um að lækka eigi tekjuskatt fyrirtækja úr 18% í 15% en flokksstjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs virðist hafa allt á hornum sér í því sambandi.

Ríkisstjórnin telur mikilvægt að styrkja samkeppnis- og rekstrarstöðu íslenskra fyrirtækja með skattalegum aðgerðum en af máli manna í Vinstri hreyfingunni – græns framboðs virðist þar vera um að ræða viðhorf sem birtist í orðum eins og að um sé að ræða einhverja sérstaka þjónkun við auðvaldið í landinu, svo notað sé orðalag sem mönnum virðist vera tamt á þeim bæ. Þessi viðbrögð VG eru sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að eins og nú háttar í efnahags- og atvinnulífi okkar er sérstaklega mikilvægt að atvinnulífið fái jákvæð skilaboð frá stjórnvöldum einmitt um að unnið verði að því að bæta áfram starfsumhverfi þess en slík skilaboð felast í yfirlýsingunni um 15% skattinn.

Mig langar í þessu sambandi að vekja athygli, herra forseti, á nýútkominni bók Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál, Cutting Taxes to Increase Prosperity, sem út kom í gær en þar fjalla fjölmargir innlendir og erlendir fræðimenn um skattamál og gera m.a. góða grein fyrir þeim mikla árangri sem skattalækkunaraðgerðir ríkisstjórna undanfarinna ára hafa skilað hér á landi.

Svo ég snúi máli mínu aftur að Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þá langar mig til að spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að flokkur hans leggist eindregið gegn því að skattar á fyrirtæki verði lækkaðir og þá kannski um leið hvort enn séu uppi áform af hálfu þess flokks (Forseti hringir.) að hækka skatta á fjármagnstekjur og hvort hann telji að slík skilaboð séu jákvæð skilaboð til atvinnulífsins.