135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

skattamál.

[13:56]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Þingmönnum Vinstri grænna verður tíðrætt um nýfrjálshyggju. Er það nýfrjálshyggja að hækka skattleysismörk um 20.000 kr. umfram verðlag? Er það nýfrjálshyggja að hækka skerðingarmörk barnabóta um 50%? Er það nýfrjálshyggja að hækka hámark húsaleigubóta um 50%? Er það nýfrjálshyggja að hækka eignaskerðingarmörk vaxtabóta um 35%? Er það nýfrjálshyggja að afnema stimpilgjöld fyrir fyrstu kaupendur? Er það nýfrjálshyggja að endurskoða námslánakerfið út frá jafnræðissjónarmiðum? Er það nýfrjálshyggja að setja lágmarksframfærsluviðmið í almannatryggingakerfinu? Er það nýfrjálshyggja að koma á fót húsnæðislánakerfi fyrir ungt fólk? Og er það nýfrjálshyggja að afnema komugjöld fyrir börn og unglinga? (Gripið fram í.) Og er það nýfrjálshyggja að afnema vörugjöld og tolla eða endurskoða það?

Það er í þágu fólksins í landinu að lækka álögur og lækka verðlag. Það er það sem ríkisstjórnin er að gera. Vinstri grænir standa ekki á bak við þær aðgerðir sem við höfum boðað í tengslum við kjarasamningana. Það er alveg ljóst að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn setja almannahagsmuni í öndvegi. Það er einfaldlega öllum í hag að fara þær leiðir sem við boðum hér því að þær skipta fólkið í raun og veru máli.

Við eigum að stefna að því að gera Ísland að samkeppnishæfasta samfélagi í heimi. En ef stefnumál Vinstri grænna eiga að ráða getum við gleymt þeim áformum. (Gripið fram í.)

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að gefa gott hljóð í þessari athyglisverðu umræðu.)