135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

skattamál.

[14:00]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Skattstefna Sjálfstæðisflokksins hefur bersýnilega orðið ofan á í því ríkisstjórnarsamstarfi milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem nú er í gildi. Hér er talað um að lækka skatta til að auka tekjur. Að sjálfsögðu mundi þessi málflutningur með sama áframhaldi þýða að engir skattar þýddu óendanlega miklar tekjur. Það sjá allir hvað það er holur málflutningur. Það fær ekki staðist þrátt fyrir ritgerð nóbelsverðlaunahafanna með Hannes Hólmstein sem ritstjóra.

Skattaákvarðanir ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga eru á skjön við þann félagslega svip sem kjarasamningarnir sjálfir báru, þrátt fyrir allt. Hvers vegna segi ég það? Það er vegna þess að hækkun persónuafsláttar, svo góð sem hún er, er látin ganga upp allan tekjuskalann. Mér leikur forvitni á að vita hversu miklar upphæðir í auknum persónuafslætti ganga til hátekjuhópanna í landinu sem betur hefðu að sjálfsögðu farið til enn hærri hækkunar persónuafsláttar til þeirra sem eru enn þá undir framfærslumörkum. Það eru áherslur sem við hefðum viljað sjá, virðulegur forseti.

Velferðarsamfélagið kostar að sjálfsögðu fjármagn og um leið er það leið samfélagsins til tekjujöfnunar. Sjálfstæðisflokkurinn talar um skattalækkun. Í staðinn koma þjónustugjöld. Þjónustugjöldin eru að sjálfsögðu skattar líka þannig að þetta er ekki spurning um að Sjálfstæðisflokkurinn vilji lækka skatta, þeir leggja á þjónustugjöld. Hér talar hv. varaformaður Samfylkingarinnar um lækkun á komugjöldum barna. Hverjir borga þá lækkun? Það eru aðrir, það er hækkun á aðra, komugjöld til annarra. Nýir gigtarskattar. Er þetta jafnaðarstefnan? spyr ég. Að sjálfsögðu ekki. Svigrúmið til skattalækkana á að okkar mati að nota til að rétta kjör þeirra sem eru undir framfærslumörkum. (Forseti hringir.) Það hefur margkomið fram í þessari umræðu til þessa.