135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

úthlutun byggðakvóta.

[14:16]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir að taka upp þessa umræðu hér þá verð ég að segja að ég átti afar erfitt með að skilja málflutning hans. Ég skildi hann á þann veg að líklega væri betra að sjóðasukkið ætti sér stað í Byggðastofnun en að byggðakvótanum væri útdeilt af ráðherra. Þannig skildi ég málflutning hv. þingmanns. Jafnframt skildist mér á honum að útdeiling byggðakvóta væri allt annars konar úthlutun á verðmætum en úthlutun fjármuna.

Auðvitað er í báðum tilvikum um að ræða fjármuni eða verðmæti sem skipta verulegu máli. Við höfum sett fram ákveðna hugmynd um að byggðakvótinn fari á almennan markað og að afraksturinn af honum fari í sjávarbyggðir til að byggja varanlega upp atvinnulíf. Við stöndum frammi fyrir því að þróunin í sjávarútvegi hefur verið sú og verður án efa áfram sú að fækka störfum. Hvernig ætla menn að mæta því? Hvernig ætla menn að mæta því nema að reyna að byggja upp varanlegan atvinnuveg, nýtt atvinnulíf á þessum stöðum?

Þetta er okkar framlag til þess og eins og hér hefur komið fram þá hefur mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna gert verulegar athugasemdir við núverandi fyrirkomulag og jafnvel kallað það mannréttindabrot. Hugmynd okkar er að reyna að opna kerfið þannig að fleiri komist að og binda síðan veiðiheimildirnar við byggðirnar. Um leið á að byggja upp nýtt atvinnulíf með því að úthluta byggðunum þeim verðmætum sem skapast af því.

Nú er það einfaldlega þannig að verið er að veita byggðunum verðmæti í gegnum byggðakvótann en því fylgja klögumál, leiðindi og gagnrýni á byggðakvótann. (Forseti hringir.) Við ætlum að mæta þessu. Við setjum fram hugmyndir til lausnar og þess vegna væri gaman að heyra hugmyndir annarra til lausnar á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Það er eftirspurn eftir þeim.