135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

úthlutun byggðakvóta.

[14:18]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er nú gott þegar ríkisstjórnarflokkarnir báðir, miðað við orð síðasta hv. ræðumanns og hæstv. sjávarútvegsráðherra, eru farnir að lýsa eftir hugmyndum og vilja hlusta á þær. Við getum lagt mikið í þann pakka í Frjálslynda flokknum. Við höfum gert það en það verður að segjast alveg eins og er að ríkisstjórnarflokkar á hverjum tíma hafa nú ekki verið mjög opnir fyrir því að lagfæra það kerfi sem menn hafa búið við, nema síður væri.

En auðvitað er það svo að tímarnir breytast og mennirnir með og við væntum þess að sú umræða sem við tökum væntanlega í dag um álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna muni fara nákvæmar í þetta mál en við gerum hér í þessum stutta ræðutíma sem nú er heimilaður.

Ég veit ekki hversu vel menn muna en í lögum um stjórn fiskveiða var fyrir nokkrum árum heimilt að leigja byggðum byggðakvóta. Eina sveitarfélagið sem þá kom til greina var Bíldudalur. Hvernig var það gert? Menn urðu að leigja á sama verði og markaðurinn þannig að það var verra fyrir byggðina að keppa að því en að reyna að fá aflaheimildir á frjálsum markaði. Þannig var það nú uppsett.

Það segir hins vegar ekki að slík hugmynd sem menn hafa verið að ræða, m.a. samfylkingarfólk, um að útfæra byggðakvóta með einhvers konar uppboði — sem ég segi að verði að vera stýrt, þurfi að vera landshlutaskipt og flotaskipt ef eitthvert vit á að vera í því þannig að það nái einhverjum þeim markmiðum sem að er stefnt.

Við megum ekki gleyma því að eina ákvæðið í lögum um stjórn fiskveiða sem nú er inni, hið svokallaða viðleguákvæði, er um byggðakvóta. Og til þess að gera hvað? Til þess að taka á þeim vanda (Forseti hringir.) sem kemur vegna frjálsa framsalsins og útfærslu kerfisins eins og það er í dag. Það er auðvitað vandi sem okkur ber að takast á við.