135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

úthlutun byggðakvóta.

[14:23]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Markmiðið með byggðakvóta er að skjóta styrkari stoðum undir atvinnulíf smárra byggðarlaga sem orðið hafa fyrir áföllum. Í fyrsta lagi til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háðar eru veiðum eða vinnslu á botnfiski. Og í öðru lagi til byggðarlaga sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa, sem hefur haft veruleg áhrif á atvinnuástand. Þá er einnig heimilt að ráðstafa aflaheimildum til allt að þriggja ára í senn, hv. þm. Guðni Ágústsson, til þess að frekari stöðugleika verði náð í atvinnuuppbyggingu.

Þegar litið er til þessara markmiða verður ekki séð að hugmyndir um uppboð á byggðakvóta verði til þess að þau náist. Þar að auki hljóta að vakna margar spurningar um það hvernig framkvæma á slíkt uppboð og hvernig úthluta á þeim peningum sem eru andvirði slíks. Ef menn eru að hugsa um atvinnu fólks í minni byggðarlögum þá er það leið sem gengur ekki upp. Fólk óskar þess að þau fyrirtæki sem verða fyrir áföllum geti haldið áfram að starfa, sé þess nokkur kostur.

Eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur farið hér yfir hefur allt verið gert til þess að reglur um úthlutun séu sem gegnsæjastar. Þau lög sem við samþykktum á síðasta ári voru einmitt til þess að styrkja þá framkvæmd. Byggðakvótinn hefur víða sýnt sig að vera stoð við atvinnulíf í minni byggðarlögum. Það skiptir auðvitað meginmáli að úthlutun byggðakvóta sé markviss og sanngjörn og dragi ekki úr þeirri hvatningu sem þarf að vera til staðar hjá útgerðum eins og annars staðar í atvinnulífinu, þ.e. hvatann til að standa sig vel (Forseti hringir.) og gera betur þegar horft er til uppbyggingar atvinnulífsins.