135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

úthlutun byggðakvóta.

[14:25]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það kemur greinilega fram í þessari umræðu hversu kvótakerfið er komið að fótum fram, hversu ranglátt það kerfi er og hversu neikvæðum áhrifum það hefur skilað.

Markmið þess var að vernda fiskstofnana. Það hefur ekki tekist. Markmið þess var að treysta atvinnu og efla byggð í landinu. Það hefur ekki tekist. Byggðakvótinn var skilgreindur sem tilraun til þess að lappa upp á ágalla kvótakerfisins, verstu ágalla sem kæmu upp. Þess vegna höfum við reyndar stutt það að því marki, í ljósi þess tilgangs. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt til, eins og hv. þm. Atli Gíslason kom hér rækilega inn á, að allt þetta kerfi verði tekið til grundvallarendurskoðunar. Þörfin var enn brýnni þegar við sáum álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í þessu máli.

Hins vegar varðandi byggðakvótann eins og hann er núna þá vekur það furðu mína að enn er ekki búið að úthluta nema um rúmlega helmingi af byggðakvóta ársins 2007. Byggðarkvótinn hlýtur að eiga að koma fyrir fram þannig að atvinnufyrirtæki og byggðarlög viti hvað þau hafa til ráðstöfunar á komandi ári.

Mig grunar að andstæðingar byggðakvótans, andstæðingar þess að fiskveiðiheimildum sé úthlutað á félagslegum og samfélagslegum grunni, byggðalegum grunni, séu að reyna að svelta þetta eina sem eftir er, að félagsleg úthlutun fiskveiðiheimilda verði afnumin líka. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna er ekki búið að úthluta byggðakvótanum öllum fyrir árið 2007? Hvernig á að (Forseti hringir.) úthluta honum eftir á? Hversu miklu er búið að úthluta af byggðakvóta fyrir árið 2008, herra forseti?