135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[14:56]
Hlusta

Frsm. heilbrn. (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. heilbrigðisnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Svein Magnússon og Ágúst Geir Ágústsson frá heilbrigðisráðuneyti, Magnús Karl Magnússon, sérfræðing í blóðmeinafræði á blóðmeinafræðideild og erfða- og sameindalæknisfræðideild við Landspítalann, Þórð Óskarsson og Guðmund Arason lækna frá ArtMedica, Þórarin Guðjónsson lækni, Ólöfu Ýri Atladóttur, Björn Rúnar Lúðvíksson og Þórunni Halldórsdóttur frá vísindasiðanefnd, Irmu Sjöfn Óskarsdóttur og Guðlaugu Magnúsdóttur frá Biskupsstofu og Sigurð Guðmundsson landlækni. Umsagnir hafa borist nefndinni frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla, landlækni, Læknafélagi Íslands og Landspítala. Jafnframt hafa nefndinni borist ýmis gögn sem snerta málið

Með frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að nota umframfósturvísa til stofnfrumurannsókna, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, í því skyni að afla þekkingar í líf- og læknisfræði eða til að bæta heilsu og lækna sjúkdóma.

Sú ákvörðun að fella ákvæði frumvarpsins inn í lög um tæknifrjóvgun helgast af því að öll helstu álitaefni sem taka þarf afstöðu til við lagasetningu um stofnfrumurannsóknir lúta að því hvort og þá að hvaða marki eigi að heimila notkun fósturvísa í því skyni að búa til stofnfrumulínur og eftir atvikum hvort leyfa eigi kjarnaflutning í læknisfræðilegum tilgangi með notkun eggfrumu. Lýtur efni frumvarpsins þannig í reynd ekki að rannsóknum á stofnfrumum sem slíkum enda hefur almennt ekki verið talin ástæða til að setja sérstakar hömlur við slíkum rannsóknum, hvorki frá siðfræðilegu né vísindalegu sjónarhorni. Hafa slíkar rannsóknir með notkun innfluttra stofnfrumulína í reynd verið leyfðar hér á landi með samþykki vísindasiðanefndar. Í ljósi þessa þykir rétt að fella lagaákvæði um þetta efni inn í lög um tæknifrjóvgun þar sem er að finna ákvæði núgildandi laga sem lúta að kynfrumum manna, fósturvísum og rannsóknum á þeim.

Nefndin fagnar tilkomu frumvarps þessa og telur að með því sé stigið framfaraskref í vísindarannsóknum og íslensku vísindasamfélagi en bendir jafnframt á siðfræðileg álitaefni sem því fylgja. Með samþykkt frumvarpsins er starfsumhverfi íslensks vísindasamfélags fært til samræmis við það sem tíðkast víða annars staðar, án þess þó að ganga eins langt og lengst er gengið í frjálsræðisátt, og því gefinn nauðsynlegur grunnur til að starfa á við rannsóknir á stofnfrumum. Jafnframt beinir nefndin því til heilbrigðisráðherra að taka til skoðunar hvaða sóknarmöguleikar felist hér á landi í eflingu stofnfrumumeðferðar og tengdra rannsókna og hvernig tryggja megi fjármögnun og aðstöðu til rannsókna á þessu sviði.

Nefndin vill benda á nokkur atriði sem hún telur að betur mættu fara.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að notkun umframfósturvísa til stofnfrumurannsókna verði einungis heimiluð á rannsóknastofum sem fengið hafa til þess sérstakt leyfi ráðherra. Getur ráðherra samkvæmt frumvarpinu bundið slík leyfi sérstökum skilyrðum, meðal annars um hæfni og þekkingu starfsmanna rannsóknastofu, eftirlit heilbrigðisyfirvalda, upplýsingagjöf og aðstöðu. Þá er í frumvarpinu, sbr. a-lið 7. gr., kveðið á um að ráðherra setji í reglugerð nánari skilyrði fyrir útgáfu leyfa til notkunar á umframfósturvísum til stofnfrumurannsókna. Leggur nefndin til að í frumvarpinu, nánar tiltekið í b-lið 2. gr., verði með beinum hætti vísað til þess að það sé skilyrði fyrir útgáfu leyfa að ákvæði laganna og umræddrar reglugerðar séu uppfyllt. Þá leggur nefndin jafnframt til að það verði ótvírætt skilyrði fyrir útgáfu leyfa að rannsóknastofa sem fær umframfósturvísum ráðstafað til sín sé hér á landi ella verði nauðsynlegu eftirliti ekki við komið. Loks er það tillaga nefndarinnar að skilyrt verði í lögunum að á rannsóknastofu sé fullnægjandi aðstaða til varðveislu fósturvísa.

Það er meginregla að sala lífsýna og líffæra er óheimil. Þó hefur gjaldtaka vegna ýmiss kostnaðar verið talin heimil, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 110/2000, um lífsýnasöfn. Í lokamálsgrein 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um að heimilt sé að taka gjald fyrir ráðstöfun umframfósturvísa til leyfishafa er nemur kostnaði við ráðstöfunina. Lítur nefndin svo á að þessi gjaldtökuheimild sé takmörkuð við kostnað sem hlýst af ráðstöfuninni sem slíkri. Telur nefndin rétt í þessu samhengi að áréttað sé í lagatextanum að öll gjaldtaka umfram þetta sé óheimil og gerir nefndin breytingartillögu þar um.

Með frumvarpinu er veitt sérstök heimild til að ráðstafa fósturvísum sem búnir hafa verið til í æxlunartilgangi en nýtast ekki í því skyni til aðila sem fengið hafa sérstakt leyfi til að nota umframfósturvísa til stofnfrumurannsókna. Í frumvarpinu er hins vegar ekki fjallað um hugsanlegt framsal fósturvísa til annarra aðila frá leyfishafa. Þótt sú ályktun verði dregin af ákvæðum frumvarpsins að slíkt framsal sé óheimilt þá telur nefndin ástæðu til að það komi skýrt fram í lagatextanum. Leggur nefndin því til að við 3. gr. frumvarpsins bætist ný málsgrein þar sem fram komi að leyfishafa sé óheimilt með öllu að framselja fósturvísa sem ráðstafað hefur verið til hans til annarra aðila. Þá leggur nefndin jafnframt til að það verði ótvírætt skilyrði fyrir útgáfu leyfa að rannsóknastofa sem fær umframfósturvísum ráðstafað til sín sé staðsett hér á landi ella verði nauðsynlegu eftirliti ekki við komið.

Eins og rakið hefur verið er það tillaga nefndarinnar að það verði skilyrði fyrir veitingu leyfa til notkunar umframfósturvísa til stofnfrumurannsókna að rannsóknastofa sé hér á landi. Þá er það jafnframt tillaga nefndarinnar að skýrlega verði kveðið á um að leyfishafa sé óheimilt að framselja umframfósturvísa sem ráðstafað hefur verið til hans til annarra aðila. Af þessu leiðir að flutningur umframfósturvísa úr landi kemur ekki til álita. Er það því tillaga nefndarinnar að 2. málsl. lokamálsgreinar 3. gr. frumvarpsins falli brott. Tekið skal fram að brottfall ákvæðisins raskar ekki heimildum til hugsanlegs flutnings fósturvísa úr landi vegna glasafrjóvgunarmeðferðar og uppsetningar á fósturvísum í leg móður eða rannsókna í tengslum við glasafrjóvgunarmeðferð, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Um slíkan flutning fer samkvæmt almennum reglum.

Í 5. og 6. gr. frumvarpsins er fjallað um notkun umframfósturvísa til stofnfrumurannsókna sem nýst geta til að afla þekkingar í líf- og læknisfræði eða til að bæta heilsu og lækna sjúkdóma. Nefndin telur nauðsynlegt að siðfræðileg sjónarmið jafnt sem vísindaleg þurfi að vera lögð til grundvallar þegar ákvörðun er tekin um rannsóknir á umframfósturvísum, sbr. ákvæði 29. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr., laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997, og reglugerð um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði nr. 552/1999. Því leggur nefndin til breytingu á 5. og 6. gr. frumvarpsins þess efnis að skýrt verði kveðið á um að almenn skilyrði laga, sbr. lög um réttindi sjúklinga og reglugerð um vísindarannsóknir, gildi við skoðun og veitingu samþykkis vísindasiðanefndar vegna fyrirhugaðrar notkunar umframfósturvísa til að búa til stofnfrumulínur og til að framkvæma kjarnaflutning í sama tilgangi. Er raunar út frá þessu gengið í frumvarpinu en nefndin telur engu síður rétt að þetta komi skýrt fram í lagatextanum sjálfum.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að nú þegar er hafin vinna við endurskoðun á ákvæðum laganna er varða tæknifrjóvgun og ákvæði reglugerðar um tæknifrjóvgun. Nefndin telur brýnt að þessari vinnu verði hraðað þar sem komið hafa fram ábendingar um að þörf sé á slíkri heildarendurskoðun, meðal annars hvað varðar möguleika einstæðra kvenna og kvenna með sérstæða sjúkdóma til að gangast undir tæknifrjóvgunaraðgerð. Einnig kemur til álita endurskoðun á aldursmörkum kvenna við tæknifrjóvgun, geymslutíma fósturvísa og skilyrðum um lengd sambúðar og staðgöngumæðrun vegna kvenna sem hafa sökum veikinda misst legið.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Ásta Möller, Ágúst Ólafur Ágústsson, Álfheiður Ingadóttir, Árni Páll Árnason, Ellert B. Schram, Kristinn H. Gunnarsson, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir og Þuríður Backman eins og kemur fram í nefndarálitinu.

Því er við að bæta, virðulegi forseti, að þetta frumvarp var í rauninni lagt fram síðasta vor og fékk umfjöllun og afgreiðslu við 2. umr. þingsins með ýmsum breytingum. Hins vegar var það nánast óbreytt lagt fram núna í haust en fór samt sem áður í verulega yfirferð þar sem komið var nýtt fólk í nefndina og jafnframt því sem það var lögð mikil áhersla á að skoða ákveðin atriði með breytingar í huga.

Umsagnaraðilar sem komu með athugasemdir hvort heldur sem gestir eða skriflegar fögnuðu almennt þessu frumvarpi og töldu að með samþykkt þess væru íslensku vísindasamfélagi sköpuð sambærileg skilyrði til rannsókna á sviði stofnfrumurannsókna og gerð eru í nágrannalöndum okkar. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að jafnframt komu ákveðnar siðfræðilegar athugasemdir meðal annars frá kirkjunnar mönnum sem voru jafnframt skoðuð. Þó verður að segjast að þrátt fyrir það að stigið er stórt skref hér að þá er ekki gengið eins langt og í mörgum nágrannalöndum okkar þar sem meðal annars er heimilt að framleiða fósturvísa gagngert til nota í rannsóknum. Við höfum ákveðið að fara hófsama leið og taka stutt skref og sjálfsagt láta þar við sitja þar sem afar mörg siðferðileg vandamál koma upp ef farið er í þann farveg að framleiða fósturvísa gagngert til nota í rannsóknum.

Jafnframt vil ég vekja athygli, virðulegi forseti, á að það komu til umræðu athugasemdir frá Blóðbankanum þar sem sérstaklega var hvatt til þess að Alþingi beiti sér fyrir stóraukinni og eyrnamerktri fjárveitingu til stofnfrumurannsókna hér á landi og bent á mikilvægi þess að þær fjárveitingar renni bæði til rannsókna á fullorðins stofnfrumum og fósturstofnfrumum.

Í því sambandi má benda á að í nefndarálitinu var sérstaklega tekið fram að nefndin beini því til heilbrigðisráðherra að taka til skoðunar hvaða sóknarmöguleikar felist hér á landi í eflingu stofnfrumumeðferðar og tengdra rannsókna og hvernig tryggja megi fjármögnun á aðstöðu til rannsókna á þessu sviði. Ég tel að þarna megi skoða ýmsar leiðir. Við erum að tala um útrás á ýmsum sviðum. Við erum með fremstu vísindamenn á sviði heilbrigðisvísinda hér á landi og full ástæða er fyrir stjórnvöld að skoða hvaða möguleikar eru þar fyrir hendi.

Ýmis álitaefni komu fram í nefndarstarfinu og var ekki síst horft til álits vísindasiðanefndar frá því í mars í fyrra sem síðan var endurtekið nánast óbreytt í umsögn til nefndarinnar frá því í desember 2007. Þar tel ég að við höfum í flestum ef ekki öllum tilvikum sem vísindasiðanefnd hefur hér dregið fram komið til móts við þær athugasemdir með viðunandi hætti. Ég vil benda á að vísindasiðanefnd tekur fram í áliti sínu að hún geri ekki efnislegar athugasemdir við þær heimildir sem veittar eru í stofnfrumufrumvarpinu. Hins vegar gerir vísindasiðanefnd athugasemd við ýmis lagatæknileg atriði, eins og þeir nefna það, sem nefndin tók til umfjöllunar og dró fram í nefndaráliti sínu og ég tel að hafi verið mætt með breytingu á frumvarpinu. Meðal annars koma þeir fram með áhyggjur af því að í 5. og 6. gr. frumvarpsins um notkun umframfósturvísa til stofnfrumurannsókna væri heimildin of víð, þ.e. heimildir vísindasiðanefndar til þess að veita samþykki fyrir vísindarannsókn, hún teldi að hún væri of víð og það víð að hún gæti í rauninni ekki annað gert en að samþykkja allar þær umsóknir sem koma til nefndarinnar um rannsóknir. En í frumvarpinu segir um þann ramma sem vísindasiðanefnd á að vinna eftir, með leyfi forseta:

„Með samþykki vísindasiðanefndar er þeim sem hlotið hafa leyfi skv. 2. mgr. 2. gr. heimilt að nota umframfósturvísa, sem ráðstafað hefur verið til þeirra skv. 5. mgr. 10. gr., til að búa til stofnfrumulínur sem nýst geta til að afla þekkingar í líf- og læknisfræði eða til að bæta heilsu og lækna sjúkdóma.“

Þetta síðasta: „… sem nýst geta til að afla þekkingar í líf- og læknisfræði eða til að bæta heilsu og lækna sjúkdóma.“ töldu þeir að væri of víð skilgreining.

Hv. heilbrigðisnefnd brást við þessum athugasemdum með því að gera breytingar á 5. og 6. gr. frumvarpsins í þá veru sem greint er í nefndarálitinu en þar segir meðal annars að nefndin leggi til breytingu á 5. og 6. gr. frumvarpsins í þá veru að skýrt verði kveðið á um að almenn skilyrði laga, sbr. lög um réttindi sjúklinga og reglugerð um vísindarannsóknir, gildi við skoðun og veitingu samþykkis vísindasiðanefndar vegna fyrirhugaðrar notkunar umframfósturvísa til að búa til stofnfrumulínur og til að framkvæma kjarnaflutning í sama tilgangi. Er raunar út frá þessu gengið í frumvarpinu en nefndin telur engu síður rétt að þetta komi skýrt fram í frumvarpinu sjálfu.

Vísindasiðanefnd hefur stoð í lögum um réttindi sjúklinga og reglugerð þeim tengdum. Sú breyting sem hv. heilbrigðisnefnd hefur gert á frumvarpinu er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Vísindasiðanefnd leggur mat á það hvort framangreind skilyrði og önnur lögmælt skilyrði um vísindarannsóknir séu uppfyllt.“

Með þessu telur heilbrigðisnefnd að hún hafi náð að þrengja aðeins ramma vísindasiðanefndar varðandi mat á rannsóknum á stofnfrumum og jafnframt að krækja þarna í lög um réttindi sjúklinga og reglugerð sem er þeim tengd þannig að vísindasiðanefnd hafi í rauninni varðandi stofnfrumurannsóknir sama ramma að vinna eftir og aðrar vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Ég vil svo bæta því við að sams konar breyting var gerð á orðalagi 6. gr.

Í umsögn vísindasiðanefndar gera þeir jafnframt aðrar athugasemdir við frumvarpið meðal annars við varðveislu stofnufrumulína. Þeir gera athugasemdir við að þær séu ekki nægilega skýrar í frumvarpinu og nefndin gerir tillögu til breytinga í þá veru að styrkja það ákvæði frumvarpsins með því að gera að skilyrði að ákvæði laganna og reglugerð ráðherra sé uppfyllt áður en gefið er leyfi til starfrækslu rannsóknarstofu til stofnfrumurannsókna, í öðru lagi að rannsóknarstofa sé staðsett hér á landi til að hægt sé að hafa eftirlit með henni og í þriðja lagi að skilyrt verði í lögum að í rannsóknarstofu sé fullnægjandi aðstaða til varðveislu fósturvísa.

Meðan reglur um varðveislu stofnfrumulína voru skoðaðar þá höfðum við meðal annars að ábendingum vísindasiðanefndar til hliðsjónar lög um lífsýnasöfn, viðeigandi ákvæði laga um lífsýnasöfn og reglugerð þeim tengda. Þessar breytingar sem ég gerði hér grein fyrir svara jafnframt athugasemdum vísindasiðanefndar um grundvöll starfsleyfis sem þeir gera í sinni umsögn.

Í síðasta lagi vil ég jafnframt nefna að töluverð umræða varð um gjaldtöku vegna fósturvísa og um leið vil ég vísa í 1. umr. málsins þar sem notað var hugtakið sala á fósturvísum. Nefndin telur að með þeim breytingum sem hún leggur til í frumvarpinu sé girt fyrir allan misskilning eða allar hugmyndir um frekari gjaldtöku eða hugmyndir um sölu á fósturvísum í hagnaðarskyni en þar segir meðal annars í nefndarálitinu með leyfi forseta:

„Það er meginregla að sala lífsýna og líffæra er óheimil. Þó hefur gjaldtaka vegna ýmiss kostnaðar verið talin heimil, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 110/2000, um lífsýnasöfn. Í lokamálsgrein 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um að heimilt sé að taka gjald fyrir ráðstöfun umframfósturvísa til leyfishafa er nemur kostnaði við ráðstöfunina. Lítur nefndin svo á að þessi gjaldtökuheimild sé takmörkuð við kostnað sem hlýst af ráðstöfuninni sem slíkri. Telur nefndin rétt í þessu samhengi að áréttað sé í lagatextanum að öll gjaldtaka umfram þetta sé óheimil og gerir nefndin breytingartillögu þar um.“

Ástæðan fyrir því að ég fer svona nákvæmlega í þessar athugasemdir frá vísindasiðanefnd er að tónninn var einna þyngstur frá þeim — í rauninni má segja að hún hafi verið mest gagnrýnin út frá faglegum forsendum á efni frumvarpsins enda ekki skrýtið þar sem vísindasiðanefnd kemur til með að meta þær rannsóknir sem kemur til álita að gerðar verði á stofnfrumum. Okkur þótti því mjög mikilvægt að koma til móts við þessi sjónarmið, sem ég tel að við höfum gert með ágætum hætti. Ég bar m.a. það atriði er varðar ramma vísindasiðanefndar, sem hún á að vinna eftir, undir formann nefndarinnar og samþykkti hann í raun þessa nálgun.

Ég tel rétt að geta þess að jafnframt barst til nefndarinnar framhaldsumsögn frá vísindasiðanefnd, undirrituð af Birni Rúnari Lúðvíkssyni, dagsett 19. febrúar 2008, eftir að álitið var afgreitt frá nefndinni. Umsögnin barst nefndinni en er samt sem áður beint til hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Hann hafði beint fyrirspurn til vísindasiðanefndar en reyndar kemur ekki fram í bréfinu hvers eðlis fyrirspurnin var. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa upp úr því:

„Á fundi vísindasiðanefndar 19. febrúar 2008 var tekin fyrir fyrirspurn yðar,“ — sem sagt hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar — „dagsett 11. febrúar sl. er varðar breytingu á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun. Vísindasiðanefnd vísar til umsagnar sinnar til heilbrigðisnefndar Alþingis frá 4. desember sl. þar sem fram koma athugasemdir við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun, 183. mál, um stofnfrumurannsóknir, enn fremur til fundar fulltrúa nefndarinnar með heilbrigðisnefnd. Fyrirhugaðar breytingar á frumvarpinu, þar sem orðalag um vísindasiðanefnd er samræmt, eru að mati nefndarinnar til bóta. Að öðru leyti áréttar nefndin fyrri athugasemdir sínar.“

Svo segir hér að lokum:

„Telji Alþingi ekki nauðsynlegt að setja nánari reglur um hlutverk og mat vísindasiðanefndar samkvæmt lögunum er brýnt að ákvæði þar að lútandi verði sett í reglugerð samhliða lagasetningunni.“

Nú veit ég náttúrlega ekki hvaða spurningum hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur beint til vísindasiðanefndar þannig að það er kannski erfitt að meta hvort vísindasiðanefnd hefur frekari athugasemdir við málið að gera. Ég tel hins vegar víst að hv. þingmaður, sem mun þá kannski svara því á eftir, hafi sérstaklega verið að spyrja formann vísindasiðanefndar um það ákvæði er snýr að þeim ramma sem nefndin starfar eftir á sama hátt og ég gerði í símtali. Fyrri athugasemdir varða þá þau atriði sem ég nefndi hér áðan í ræðu minni, þ.e. gjaldtöku, starfsleyfi og varðveislu stofnfrumulína.

Það kemur þá í ljós á eftir í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar hvernig þeim samskiptum hefur verið háttað en mér sýnist af flestu að við höfum komið til móts, eins og ég hef greint frá hér á undan, við þær athugasemdir sem vísindasiðanefnd setur fram. Að sjálfsögðu mun ég ekki hafa á móti því ef hv. þingmaður óskar eftir að boða vísindasiðanefnd á fund nefndarinnar fyrir 3. umr.

Að lokum vil ég segja að vissulega voru dregin fram siðfræðileg rök og siðferðileg álitaefni í þessari umræðu og ekki síst frá biskupi Íslands. Mig langaði að lokum aðeins að bera niður í umsögn biskups frá 21. febrúar 2007, með leyfi forseta:

„Samkvæmt frumvarpinu er leyft að nota fósturvísa til að búa til stofnfrumulínur, og til rannsókna á umframfósturvísum og til kjarnaflutnings og sagt er í rökstuðningi að að baki þeim tillögum liggi veigamikil læknisfræðileg og þekkingarfræðileg rök. Þær heimildir hljóta að flokkast með mestu siðferðilegu álitaefnum í samtíðinni. Með slíkum heimildum er í raun verið að stíga skref inn á braut sem getur hæglega leitt vísindamenn og samfélagið í siðferðilegar ógöngur við minnsta frávik. Sú mikla vinna sem lögð hefur verið í undirbúning málsins vitnar um hvað gæti legið í leynum á þessari leið í siðferðilegum efnum.“

Jafnframt segir hann annars staðar, með leyfi forseta:

„Telja má nauðsynlegt að setja þrengri skorður varðandi tilgang umræddra rannsókna og meðhöndlun umframfósturvísa. Út frá því sjónarmiði mættu ákvæði um bann við tilteknum rannsóknum vera skýrari, sérstaklega varðandi kjarnaflutning í æxlunarskyni (einræktun), ræktun fósturvísa til þess eins að gera á þeim rannsóknir og að setja fósturvísa manna í dýr. Telja verður brýnt að fylgja þeim skorðum, sem settar eru, fast eftir og það komi fram í ákvæðinu um refsingar í 8. gr. frumvarpsins að hvers kyns brot á lögum í þessum efnum séu alvarleg brot.“

Ég tek undir með biskupi Íslands, það þarf að fara mjög varlega í þessum efnum. Ég held reyndar að í frumvarpinu sé tekið á þeim áhyggjuefnum sem hann sérstaklega nefnir, kjarnaflutning í æxlunarskyni eða einræktun, ræktun fósturvísa í rannsóknarskyni eingöngu og að setja fósturvísa manna í dýr. Í frumvarpinu er þetta algjörlega bannað. En vissulega erum við á þeirri leið núna að við getum staðið frammi fyrir býsna mörgum vísindalegum freistingum sem ég tel að við þurfum að fara varlega með. Það er því mjög mikilvægt, þegar frumvarp af þessu tagi kemur til hv. Alþingis, að við gætum að okkur, stígum skrefin varlega, gætum meðalhófs og gætum þess jafnframt að kröfur um slíka starfsemi og eftirlit með henni séu með besta móti.

Ég vil að lokum þakka hv. heilbrigðisnefnd fyrir frábæra vinnu í þessa veru. Vinnan hefur verið mjög góð, ítarleg og sanngjörn. Við höfum leitað upplýsinga þar sem við höfum þurft og tekið sjónarmið til skoðunar. Ég tel að eftir þá vinnu sem við höfum lagt í frumvarpið, eins og það kemur nú fyrir sjónir Alþingis við 2. umr., séum við með mun betra frumvarp en við vorum með í höndunum við 1. umr.