135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[16:05]
Hlusta

Frsm. heilbrn. (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins segja nokkur orð hér í seinni ræðu minni. Þetta hefur verið fín umræða og hún hefur dregið fram þau álitaefni sem hafa verið til skoðunar í hv. heilbrigðisnefnd og hvernig nefndin hefur tekið á þeim. Ég vil jafnframt nota tækifærið að leiðrétta sjálfa mig í ræðu minni áðan þar sem við vorum í andsvari, ég og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, þar sem ég fór eftir minni og taldi að vísindasiðanefnd hefði komið fyrir heilbrigðisnefndina sl. vor. Ég hef nú haft tækifæri til þess að skoða hverjir komu til nefndarinnar og vísindasiðanefnd eða fulltrúar hennar voru ekki gestir nefndarinnar til þess að fjalla um málið. Það breytir því ekki að nefndin hefur tekið málið upp aftur og flutt á ný nú í haust og hefur tekið það til ítarlegrar umræðu og það er alveg ljóst að athugasemdir vísindasiðanefndar hafa verið mjög mikilvægar í þessum efnum og hefði ég óskað að þær hefðu borist fyrr í fyrra en það kom ekki að sök þar sem málið er afgreitt fyrst núna.

Jafnframt vil ég nota tækifærið og hrósa hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir elju sína í málinu. Hann hefur verið mjög staðfastur í því að reka málið áfram og halda á lofti þeim sjónarmiðum sem m.a. vísindasiðanefnd hefur bent á í umsögn sinni og ég vil nota tækifærið til þess að þakka honum fyrir þá elju.

Eins og kom fram í ræðu minni áðan og í framhaldi af óskum hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um að taka málið til skoðunar á milli 2. og 3. umr. þá finnst mér það sjálfsagt. Bréf vísindasiðanefndar frá 19. febrúar 2008, sem barst til Kristins H. Gunnarssonar og afrit til nefndarinnar er á þann veg að það þarf að útskýra það nánar. Það er ekkert annað hægt að segja en að ef það getur leitt til þess að gera gott mál enn þá betra þá er það af hinu góða. Það er hlutverk okkar allra að standa vel að löggjöfinni þó að það sé í sjálfu sér ekki hefðbundið að bera breytingar undir umsagnaraðila held ég að í þessu tilviki sé það að fullu réttlætanlegt til þess að við fáum staðfestingu á því í svona flóknu máli að við séum á réttri leið.