135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

sértryggð skuldabréf.

196. mál
[16:24]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óþarfi að hafa um þetta mál mörg orð. Eins og hér hefur verið rakið var um það mikil samstaða í hv. viðskiptanefnd. Það hefur verið mikill vandi á íslenskum skuldabréfamarkaði áratugum saman að útgáfan hefur verið lítil og verðlag þess vegna erfitt á skuldabréfamarkaði. Það hefur svo aftur leitt til þess að vaxtastig í landinu hefur að jafnaði verið hærra en ella þyrfti að vera.

Burðarásinn í viðskiptum á íslenskum skuldabréfamarkaði hefur verið útgáfa ríkisins á ríkistryggðum skuldabréfum til að fjármagna íbúðalán, fyrst í gegnum húsbréfakerfið og svo nú með útgáfu íbúðabréfa. Þar er hins vegar einvörðungu um að ræða eina tegund bréfa, þ.e. verðtryggð bréf, almennt til langs tíma og því skortir mjög á að skuldabréfamarkaður með aðrar skuldbindingar og þá sérstaklega til skemmri tíma, óverðtryggðar skuldbindingar, sé nægilega djúpur.

Þess vegna er sérstakt fagnaðarefni þegar unnið er að því að reyna að fjölga möguleikum á útgáfu skuldabréfa. Þetta mál sem nú hefur verið afgreitt úr hv. viðskiptanefnd hefur það að markmiði að auðvelda bönkum og öðrum á markaði sem eiga þær eignir sem taldar eru upp í frumvarpinu að koma þeim í markaðshæft form með því að láta þær liggja til tryggingar sértryggðum skuldabréfum. Þar með er tryggður réttur kaupenda bréfanna, sem jaðrar þá við að vera jafnöruggur og ef um væri að ræða skuldabréf sem gefið væri út af ríki, þ.e. að aðgangurinn að eignunum sem að baki liggja er tryggður jafnvel þótt útgefandi bréfanna verði gjaldþrota.

Ég vil geta þess hér og tel eðlilegt að það komi fram í þessari umræðu að eins og nú háttar lögum hefur Íbúðalánasjóður ekki tök á því að gefa út bréf af þessum toga því að Íbúðalánasjóður er samkvæmt lögum bundinn af þeirri skyldu að gefa út verðtryggð bréf með tilteknum hætti. Í niðurstöðum athugunar sem hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra, sem nú situr í forsetastóli, stóð fyrir haustið 2006 var lagt til að Íbúðalánasjóði yrði gert kleift að nýta sér svigrúm til útgáfu sértryggðra skuldabréfa. Í þeirri úttekt var lögð áhersla á að það mundi líka draga úr ríkisábyrgðum í útgáfu bréfa almennt og gæti þar af leiðandi verið almennt jákvætt fyrir fjármálamarkaðinn. Ég held að í framhaldinu af samþykkt þessa frumvarps sé sjálfsagt að horfa til þess að Íbúðalánasjóður fái sama svigrúm og aðrar lánastofnanir til að nýta sér þennan útgáfuhátt með sértryggðum skuldabréfum þannig að hægt sé að draga úr útgáfu ríkistryggðra bréfa og jafnframt mögulega að draga úr útgáfu verðtryggðra langtímaskuldabréfa, sem eins og alþjóð veit eru eitt af stærstu vandamálunum í skilvirkri stjórn peningamála í landinu. Það gæti því einfaldlega hjálpað við stjórn peningamála í landinu og jafnframt stuðlað að lækkun langtímavaxtastigs ef Íbúðalánasjóður fengi svigrúm af þessum toga.