135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa.

401. mál
[16:32]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa.

Annars vegar er um að ræða breytingar á nokkrum ákvæðum laganna til að innleiða ákvæði um alþjóðlegt öryggisstjórnunarkerfi eða svokallaðan ISM-kóða sem farþega- og flutningaskipum ber að viðhafa. Hins vegar er um að ræða breytingar á lögum til að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um gagnkvæma viðurkenningu á skírteinum sjómanna sem aðildarríkin gefa út.

Tilgangur frumvarpsins er einkum að auka öryggi á sjó, að koma í veg fyrir slys eða manntjón og forðast mengun sjávar og skemmdir á eignum með því að útgerðir þeirra skipa sem um ræðir starfi í samræmi við öryggisstjórnunarkerfið. Öryggisstjórnunarkerfið á að tryggja að farið sé að reglum og tekið sé tillit til gildandi kóða, viðmiðunarreglna og viðmiðana á sviði siglingastarfsemi.

Tilskipunin sem hér er leitast við að innleiða með frumvarpi þessu má segja að sé tvískipt. Annars vegar er hún sértilskipun sem mælir fyrir um hvernig skuli fara með skírteini sem gefin eru út innan EES, hins vegar breytir hún og bætir við ákvæðum tilskipunar frá árinu 2001 um lágmarksþjálfun sjómanna, en þar gefur einnig að líta ákvæði um gagnkvæma viðurkenningu á skírteinum sjómanna, svokölluðum STCW-skírteinum. Við erum því í dag skuldbundin til að gefa út og árita atvinnuréttindi samkvæmt eldri tilskipuninni.

Hæstv. forseti. Ég mun nú í stuttu máli gera nánari grein fyrir breytingum sem lagðar eru til á einstökum ákvæðum. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar á nokkrum ákvæðum laganna þar sem ákvæðin eru uppfærð með hliðsjón af gildandi tilskipunum en í gildandi lögum er að finna tilvísanir í tilskipanir sem fallnar eru úr gildi.

Í öðru lagi er lagt til að tveimur skilgreiningum verði bætt við 2. gr. þar sem m.a. ISM-kóðinn verður sérstaklega skilgreindur.

Í þriðja lagi er lagt til að við lögin bætist ný grein, sem yrði 9. gr. a, þar sem kveðið verði á um að flutningaskipum yfir 500 brúttótonn og farþegaskip sem lögin taka til verði skylt að fylgja ákvæðum ISM-kóðans og taka upp alþjóðlegt öryggisstjórnunarkerfi. Þó er gert ráð fyrir því að Siglingastofnun Íslands hafi heimild til þess að veita undanþágur frá tilgreindum ákvæðum kóðans. Jafnframt gerir ákvæðið ráð fyrir að undanskilja ákveðnar tegundir skipa frá þeirri skyldu að fylgja ákvæðum ISM-kóðans eins og t.d. skip sem eingöngu eru nýtt í þágu hins opinbera en ekki í atvinnuskyni.

Í fjórða lagi eru smávægilegar orðalagsbreytingar gerðar á 17. gr. auk þess sem sérstakt innleiðingarákvæði er að finna.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta frekari orð heldur legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.