135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

402. mál
[17:28]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef nú kannski ekki miklu við það að bæta sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði hér en vil þó segja að mál af þessu tagi er auðvitað gríðarlega mikið framfaramál. Það er orðið löngu tímabært að gera könnun af því tagi sem hér er lagt til. Ef okkur er alvara í því að ætla að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þá gerum við það best með því að endurskoða samgöngurnar. Það gerum við auðvitað fyrst og fremst hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu þar sem umferð einkabíla er mest og losun frá einkabílnum þar af leiðandi langhæst og vegur þyngst.

Við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum ítrekað lagt fram þingmál sem lúta að því að efla almenningssamgöngur, reyndar ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur úti um allt land. Enda samrýmist það stefnu flokksins og grundvallarstefnumiðum hans um hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Nýjungar í samgöngumálum eru hlutir sem við höfum verið að kynna okkur og koma fram og kristallast í tillögu af því tagi sem hér er talað fyrir.

Hæstv forseti. Ég fagnaði því hversu mikla athygli þessi tillaga vakti í fjölmiðlum þegar hún kom fram. En ekki virðist vera jafnmikill áhugi á henni hér á Alþingi því að þingmenn hafa ekki verið að kveðja sér hljóðs. Ég treysti því samt að hæstv. samgönguráðherra, sem hér er staddur, komi til með að segja álit sitt á henni. Ég treysti því að hæstv. samgönguráðherra, sem situr hér á þingi fyrir Samfylkinguna, rifji nú upp kosningaloforðin um umhverfismarkmiðin og átti sig á þeim markmiðum sem hæstv. umhverfisráðherra hefur talað hér fyrir varðandi takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda.

Það er gríðarlegt verkefni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 25–40% á næstu tólf árum. Það gerum við aldrei, við komum aldrei neinu í kring í þeim efnum ef við ætlum ekki að breyta samgöngumáta hér á höfuðborgarsvæðinu. Hæstv. samgönguráðherra, ábyrgðin er talsvert mikil sem hvílir á þeim manni sem fer með samgöngumál á þeim tímum sem við nú lifum.

Það hefur verið afar athyglisvert að skoða nýju tillögurnar sem hafa verið til sýnis í Listasafni Reykjavíkur um skipulag í Vatnsmýrinni. Maður tókst allur á loft þegar maður sá að Skotarnir, sem gerðu tillöguna sem hlaut 1. verðlaun, höfðu jafnvel gert sér í hugarlund að í framtíðinni gæti verið lestartenging til Keflavíkur, og það ekki nein venjuleg lestartenging heldur einhvers konar segullest, magnetic levitation train upp á engilsaxnesku, þ.e. lest sem fer með gríðarlegum hraða og lyftist, að því er mér skilst, frá jörðu og snertir hvergi teina þannig að viðnámið verður eins lítið og hugsast getur.

Þetta var bara hægt í vísindaskáldsögunum þegar ég var ung kona. (Samgrh.: Fljúgum til Keflavíkur.) Fljúgum til Keflavíkur, segir hæstv. samgönguráðherra. Það er stundum sagt um okkur vinstri græna að við viljum hverfa aftur til fortíðar, ég segi við hæstv. samgönguráðherra: Komum til framtíðar og förum í segulknúna lest sem gæti farið á átta til tíu mínútum frá miðborg Reykjavíkur til Keflavíkur. Hugsum stórt, sköpum framtíðina, það getum við gert hér á Alþingi Íslendinga með því að samþykkja umrædda tillögu, fara strax í þá vinnu sem þar er lögð til og tryggja að umhverfisvænar samgöngur og öflugar almenningssamgöngur verði að veruleika í okkar landi.