135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:19]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að leggja orð í belg um málið sem hér er til umræðu, um að setja sólarlagsákvæði í núverandi lög um stjórn fiskveiða. Það byggir á því að settur skuli á fót starfshópur sem taki lögin til endurskoðunar. Þar verði sérstaklega hugað að markmiðum nýrra laga um stjórn fiskveiða, í fyrsta lagi að nytjastofnar á Íslandsmiðum verði óvefengjanlega sameign íslensku þjóðarinnar. Í annan stað að ný lög tryggi verndun, sjálfbærni og hagkvæmni á nýtingu sjávarauðlinda og lífríkis sjávar sem og að þau tryggi örugga atvinnu og byggð í landinu.

Það má segja að bæði ákvæðin sem talin eru upp í 2. gr. séu í raun sömu ákvæði um 1. gr. laga um stjórn fiskveiða og eru í dag. En það verður líka að segja þá hryggðarsögu að þeim markmiðum hefur alls ekki verið náð með stýringu fiskveiða eins og hún er nú.

Þar kemur auðvitað margt til og væri hægt að hafa um það langt mál. Það er þó alveg ljóst að til þess að menn nálgist einhverja sátt um sjávarútveginn hér á landi þarf í fyrsta lagi að taka burtu leigu- og sölurétt útgerðanna, þ.e. einkasölurétt útgerðanna á því að selja aflaheimildirnar sem þær hafa fengið úthlutað. Það er auðvitað nýtingarréttur og ætti ekki að vera neitt annað en nýtingarréttur. Ef menn vilja ekki nýta sér hann þá skila þeir honum til baka. Auðvitað má hafa það þannig að ef menn nýta réttinn upp að 95% þá falli það sem er umfram niður á milli fiskveiðiára. Það yrði væntanlega til friðunar að einhverju marki að því gefnu að menn trúi á geymslukenninguna í sjónum sem er náttúrlega ekki alveg borðleggjandi að standist í raun.

Það er alveg ljóst að það verður aldrei sátt um stjórn fiskveiða sem byggir upp á því að handhafar veiðiréttarins sem útgerðarmenn þurfa vissulega að hafa — þeir þurfa að hafa handhöfn á því að veiða fiskinn sem þeim er ætlað að nýta um ákveðinn tíma. Sú kvöð á að byggjast á því að þeir geri út til fiskveiða og afli tekna með því að veiða fiskinn. Ef þeir ekki vilja nýta sér þennan rétt, sem ég vil skilgreina sem nýtingarrétt þeirra sem fá veiðiheimildir eftir hvaða kerfi sem við látum þá hafa þær, þá tel ég að veiðiheimildirnar eigi að renna til baka og standa öðrum til boða. Ríkið á að setja upp leigumarkað eða sölumarkað eftir því hvort menn bjóða upp á nýtingarrétt til eins, tveggja, þriggja eða fimm ára eða innan ársins. Það kemur allt til greina. Jafnvel væri hægt að hugsa sér að þeir sem sækjast eftir nýtingarréttinum kæmu með tilboð um hversu lengi þeir vildu halda nýtingarréttinum.

Alla vega þurfa útgerðir að hafa kerfi þar sem þær eiga rétt á að nálgast veiðiheimildir, sóknardaga eða hvaða aðferð menn vilja nota til að veiða fisk.

Það er alveg rétt sem sagt er framarlega í greinargerðinni. Þar telja flutningsmenn mjög mikilvægt að sjávarútvegurinn búi við stöðugleika og að fyrirtæki og starfsfólk í greininni sjái jafnan með góðum fyrirvara hvert stefnir í lagaumhverfinu. Það er ekki svoleiðis í dag. Það er langur vegur þar frá. Fólkið í sjávarbyggðunum hefur ekki hugmynd um hvort veiðiheimildirnar verða þar á morgun eða í næsta mánuði vegna þess að það er einn aðili sem má láta frá sér þessar heimildir. Það er útgerðarmaðurinn.

Þá tengingu þarf að afnema þannig að menn hafi eingöngu nýtingarrétt á þeim heimildum sem þeir fá, hvort sem það er kvótakerfi, sóknarstýringarkerfi eða önnur kerfi sem menn nota. Það er algjört skilyrði. Í rauninni er það svipað því sem segir í áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, að menn eigi að geta sótt í veiðiheimildir án þess að þurfa að borga öðrum einstaklingum fyrir það.

Við í Frjálslynda flokknum og þingmenn úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lögðum fram þingmál á kjörtímabilinu 1999–2003 um sameiginlega sýn okkar á hvað takast þyrfti á við í sjávarútveginum. Það þingmál fékkst ekki afgreitt og kom aldrei til baka úr nefnd. Þannig hefur það auðvitað verið með fjöldamörg frumvörp og tillögur þeirra sem hafa viljað breyta kerfinu, og lögð hafa verið hér fram í hv. Alþingi. Frumvörp og tillögur hafa farið inn í nefnd, sofnað þar og aldrei verið talað um þau meir í sölum Alþingis nema af því að menn hafa endurflutt þau ári síðar. Þetta er svæfingarkerfi Alþingis á málatilbúnaði. Stjórnvöld hafa beitt þessari aðferð og sjávarútvegsráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa í gegnum tíðina passað vel upp á þetta framseljanlega kvótakerfi sem við búum við með öllum þeim göllum og annmörkum sem því hafa fylgt. Því hefur líka fylgt algjört árangursleysi við uppbyggingu fiskstofna og að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Það er hinn kaldi veruleiki.

Um árangur af fiskveiðikerfum og kvótakerfum höfum við þingmenn fjöldamargar skýrslur. Byggðastofnun vann upp skýrslur á sínum tíma um hvað mundi gerast ef kvótasett yrði í smábátakerfinu. Því var spáð m.a. að á Vestfjörðum mundi störfum fækka um 300. Það gekk auðvitað eftir. En það breytti engu um það að hæstv. núverandi sjávarútvegsráðherra fór þá leið vitandi vits þótt hann væri að drepa niður byggðina sína.

Menn hafa farið þessar leiðir burt séð frá því þótt afleiðingarnar væru ljósar fyrir fram. Í stað þess að reyna að hafa eitthvert frjálsræði í kerfunum eins og mögulegt var — eins og við sáum reyndar í smábátakerfinu meðan við vorum bara með þorskaflahámark. Menn reyndu þar að ná vopnum sínum og reisa jafnvel við byggðir sem voru búnar að missa frá sér allar veiðiheimildir. Menn þurftu að sækja sjóinn. Engin verðmæti urðu til nema menn færu á sjó vegna þess að þeir þurftu að ná í allar hinar tegundirnar þótt þeir hefðu kvóta í þorski.

Það segir okkur auðvitað hvað sjósóknarrétturinn er sjávarbyggðunum mikils virði. Þess vegna er það meginmál í allri þessari vinnu sem vonandi verður unnin á næstu árum, að við skoðum vandlega hvernig við ætlum að fara að. Skoðun okkar í Frjálslynda flokknum er algjörlega skýr. Við teljum að skipta þurfi flotanum upp í aðgreinda útgerðarflokka. Ef menn vilja t.d. taka uppboð á veiðiheimildum er alveg vonlaust að hafa fjölveiðiskipin okkar saman í uppboðsflokki með trillunum. Það hljóta allir að sjá að mun aldrei ganga upp og það mun aldrei þjóna hagsmunum byggðanna né hagsmunum atvinnunnar í sjávarbyggðunum. Við teljum að skipta verði flotanum upp og að móta verði stefnu um að taka verulegan hluta aflaheimildanna út fyrir sviga og opna þar innkomu fólks í sjávarútveginn með ýmsum aðferðum og það eru fjöldamargar aðferðir til þess. En þar hefur ævinlega skort vilja.

Rétt til að rifja það upp fyrir hv. alþingismenn út á hvað útgerðarmenn hafa verslað. Á síðustu árum frá 1991, þegar frjálsa framsalið var tekið upp, hafa íslenskir útgerðarmenn verið að kaupa sín á milli og leigja sín á milli þorsk sem hefur byggst á því að aflaheimildir í þorski í hlutdeildarkerfinu væru að meðaltali 170 þús. tonn. Út á það hafa menn treyst sér til að versla og út á það hafa bankarnir treyst sér til að lána.

Ef við værum að skoða kerfið og reyna að breyta því, þá kynni að vera, vegna þess hversu lengi kerfið hefur verið við lýði, að menn þyrftu að skoða það að hafa einhvern hlutdeildarpott til staðar. Hann væri til aðlögunar fyrir þá sem eru búnir að kaupa. Það væri þá aldrei yfir 170 þús. tonnum, sennilega minna. Það sem þar væri umfram væri síðan nýtt til þess að lagfæra kerfið og opna það, tryggja byggðirnar o.s.frv. og þannig mundum við smátt og smátt komast úr þessu kerfi, komast á millikerfi, eins og ég kalla það, m.a. með því að fækka kvótabundnum fisktegundum þannig að hinar virðulegu fisktegundir eins og steinbítur, keila, langa, skötuselur og fleiri tegundir sem þurfa ekki að vera í kvótakerfinu, væru það ekki. Þær hafa reyndar ekkert þar að gera. Steinbíturinn hefur reyndar ýmist verið inni í kvótakerfinu eða ekki og það hefur engu breytt um hann. Það er auðvitað hinn kaldi veruleiki að kvótakerfið hefur ekkert byggst upp í almennum botnfiskveiðum. Því miður, það hefur ekki gert það.