135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:31]
Hlusta

Sigfús Karlsson (F):

Herra forseti. Í Morgunblaðinu í gær rita tveir hv. þingmenn, Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson, langa og ítarlega grein undir yfirskriftinni „Til mikils að vinna“. Í greininni lýsa hv. þingmenn áhyggjum sínum af stöðu fjármálamarkaðarins, hagkerfinu og íslensku bönkunum, háu skuldatryggingarálagi bankanna og þeim afleiðingum sem hugsanlega gætu skapast ef bönkum muni ganga illa að afla þess fjár sem þeir þurfa á næsta ári.

Ég deili vissulega áhyggjum mínum með hv. þingmönnum af þessu ástandi og lít það grafalvarlegum augum. Ég get einnig tekið undir nokkrar af þeim hugmyndum að aðgerðum sem þeir lýsa. En á engan hátt get ég verið hv. þingmönnum sammála þar sem þeir lýsa þeirri skoðun sinni að alla almenna hluta Íbúðalánasjóðs ætti að færa út á markaðinn til viðskiptabankanna við fyrsta tækifæri og breyta þar með hlutverki Íbúðalánasjóðs.

Það hefur margoft komið fram í umræðum að bankarnir séu vægast sagt tregir til að lána til íbúðakaupa í dreifðum byggðum landsins. Nú hefur sú staða komið upp, eins og kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi, að einn viðskiptabankanna hafi vísað á Íbúðalánasjóð vegna viðbótaríbúðaláns þar sem peningar bankanna væru orðnir svo dýrir og vextir þar af leiðandi svo háir. Við framsóknarmenn viljum nú sem endranær standa vörð um hið mikilvæga hlutverk Íbúðalánasjóðs í því ástandi sem nú er þar sem vextir viðskiptabankanna eru allt of háir í dag af áðurnefndum ástæðum og engin lausn að færa það hlutverk til bankanna.

Það er því spurning mín til hv. þm. Bjarna Benediktssonar hvort það sé stefna ríkisstjórnarinnar að breyta hlutverki Íbúðalánasjóðs í þá veru sem hv. þingmenn setja fram hugmyndir um í áðurnefndri blaðagrein.