135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:43]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu vekur það eftirtekt þegar tveir ungir hv. þingmenn taka sig til og skrifa mikla grein, hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson, sem sumir kalla krónprinsana í Sjálfstæðisflokknum. Þeir fjalla um efnahagsmál, það er mjög eftirtektarvert. Loksins eru aðilar í Sjálfstæðisflokknum að vakna upp við það að staðan er grafalvarleg.

Í greininni kemur fram að ríkið eigi að minnka umsvif sín á íbúðalánamarkaði. Þegar maður horfir yfir stöðuna er alveg ljóst, miðað við hvernig orð hafa fallið hér á þinginu, að Samfylkingin hefur tekið við hlutverki Framsóknarflokksins við það að standa í ístaðinu gegn því að Íbúðalánasjóður verði lagður niður. Maður getur mjög auðveldlega séð það, bæði í ræðum sem hér voru fluttar um daginn, t.d. í ræðu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar og Lúðvíks Bergvinssonar, en þeir undirstrika báðir mikilvægi Íbúðalánasjóðs. Það höfum við framsóknarmenn gert líka, við höfum viljað standa vörð um hann.

Ef við skoðum hvað er að gerast á íbúðalánamarkaði kemur í ljós að nú í janúar lánuðu bankarnir 850 milljónir kr. til íbúðakaupa. Í október 2004 lánuðu þeir 33 milljarða. Það er verið að lána 40 sinnum minna til íbúðakaupa í bankakerfinu á meðan staðan er betri hjá Íbúðalánasjóði. Íbúðalánasjóður var að lána 4,5 milljarða í þessum mánuði. Ef Íbúðalánasjóður væri ekki á markaðnum núna væri alkul á íbúðalánamarkaði, alkul. Hvernig væri það nú fyrir íbúa þessa lands? Það væri ekki góð staða.

Það verður að standa vörð um Íbúðalánasjóð og ég skora á Samfylkinguna að gera það. Það gerðum við framsóknarmenn og ég vona að Samfylkingin geri það líka. Ég tek undir með hv. þm. Sigfúsi Karlssyni: Við viljum gjarnan fá að vita hvað Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér. Þetta er það stórt mál að það verða að koma (Forseti hringir.) skýrari svör frá þeim flokki en það sem nú er verið að gefa í skyn.