135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:47]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigfúsi Karlssyni fyrir að hefja þessa umræðu og reyndar lýsa ánægju minni yfir því að nú skuli vonandi hafin umræða um ýmis grundvallarmál í íslenskri pólitík, um skattastefnu, um landamærin á milli hins opinbera og markaðarins og annað af því tagi. Þessu höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði verið að kalla eftir og ég þakka þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir að taka þessari áskorun okkar.

Þá að efnisþáttum umræðunnar núna. Hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde birtist í miklu viðhafnarviðtali í Morgunblaðinu á sunnudag. Hann sagði að nú væri ekki blöðum um það að fletta að ástandið í fjármálaheiminum væri ótryggt. Bankarnir hafi verið mjög djarfir, hann vildi ekki nota ábyrgðarlausir en djarfir hafi þeir verið. Við þessu er tvennt til ráða sagði hæstv. forsætisráðherra. Í fyrsta lagi meira ál, ál á Bakka, ál í Helguvík, Þorlákshöfn og víðar. Í öðru lagi þarf að þrengja að Íbúðalánasjóði. Hann orðaði hugsun sína ekki á þann veg en það mátti skilja að þetta voru skilaboðin og undir þetta tóku síðan hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson í Morgunblaðsgreininni umræddu.

Við þetta hef ég sitthvað að athuga. Það er vissulega rétt sem fram kom hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni áðan að það mundi styrkja stöðu bankanna að fá til sín íbúðalánamarkaðinn. Spurningin er hins vegar sú: Mundi það styrkja stöðu almennings í landinu að verða án þeirrar kjölfestu sem Íbúðalánasjóður hefur verið á undanförnum árum? Um það hef ég meira en efasemdir og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og þess vegna erum við staðráðin í að standa vörð um þessa þjóðþrifastofnun.