135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:49]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Herra forseti. Ísland er hluti af stærra sameiginlegu markaðssvæði og hefur því undirgengist ákveðnar skuldbindingar sem snúa að samkeppnismálum. Þetta þýðir að okkur er ekki heimilt að mismuna einstökum fyrirtækjum og viðskiptalífinu yfirleitt með sérstökum lögum og reglum sem eiga við suma lögaðila en ekki aðra. Hér er íbúðalánamarkaðurinn ekki undanskilinn og stjórnvöldum ber að jafna samkeppnisaðstöðuna á milli Íbúðalánasjóðs og bankanna.

Með lögum um sérvalin skuldabréf er hægt að jafna þessa samkeppnisstöðu og telja sérfræðingar að það komi ekki neitt niður á vaxtakjörum til einstaklinga. Síðan þarf að taka á félagslegu hlutverki sjóðsins og er það til sérstakrar skoðunar og er landsbyggðin þar að sjálfsögðu ekki undanskilin. Ég leyni því ekki að ég er sjálfur á þeirri skoðun að ég held að það gæti verið farsælast að hér yrði stofnaður sérstakur heildsölubanki með íbúðalánum. Það mundi ýta undir samkeppni bankanna á ýmsum sviðum, t.d. hvað varðar þjónustugjaldið og þjónustu yfirleitt hjá bönkunum. Ég held líka að það sé ljóst að það mundi skapa Íslandi bestu lánakjör á íbúðamarkaðnum ef hér væri sameiginlegur íbúðabanki eða heildsölubanki sem sæi um íbúðalán. En undirstaðan fyrir því að hér geti verið öflug og góð lánakjör á markaðnum er að stöðugleiki ríki og hér verður ekki stöðugleiki nema við náum niður verðbólgunni. Því miður er verðbólgan of há eins og staðan er í dag og verkefnið er að ná henni niður og ef við náum henni niður er ég ekki í nokkrum vafa um að hvort heldur bankarnir, sparisjóðir eða aðrir slíkir munu geta boðið öflug kjör á íbúðalánamarkaði.