135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:52]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Herra forseti. Það varðar metnað og virðingu Alþingis að við ræktum samband við næstu granna okkar í vestri og austri. Fyrir nokkru varð það ólán í Færeyjum að feiknmikið tjón varð í Skálavík á Sandey, í 300 manna þorpi þar sem stór skaði varð vegna feikilegs brimróts. 15 af 16 bátum Skálamanna skemmdust, mannvirki skemmdust, frystihúsið, hús og eignir sem þarf að hjálpa til við að koma í stand.

Færeyingar hafa framar öllum öðrum þjóðum staðið við bakið á Íslendingum þegar upp hefur komið vandi á Íslandi, hvort sem er af völdum snjóflóða, eldsumbrota eða annarrar ólukku sem yfir hefur dunið. Í sumum tilvikum hafa þeir staðið sig betur en við Íslendingar sjálfir í stuðningi við verkefni sem hafa komið upp. Þess vegna vil ég hvetja til þess að hæstv. ríkisstjórn taki þetta mál upp og beini því til hæstv. ráðherra sem hér eru, Kristjáns Möllers og Össurar Skarphéðinssonar, að þeir taki það upp í ríkisstjórninni og fylgi því eftir, því að við þurfum að gæta þess að rækta garðinn og sýna vinum okkar og frændum, Færeyingum, mikla tryggð. Hafin er almenn söfnun og það er gott en íslenska ríkið á auðvitað að koma að þessu máli.