135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:53]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er kannski erfitt að fylgja eftir síðustu ræðunni en ég ætlaði hins vegar að fylgja eftir fyrri ræðum — (Gripið fram í.) þakka þér fyrir það, hæstv. ráðherra, þá er þetta bara leyst — sem var farið af stað með í byrjun varðandi umrædda blaðagrein sem var um margt ágæt og yfirgripsmikil og tónaði við forustugrein Morgunblaðsins að nokkru, enda ekkert skrýtið. Hins vegar stendur upp úr í þeirri blaðagrein annars vegar umfjöllun um Íbúðalánasjóð og hins vegar verðbólgumarkmiðin.

Það er alveg ljóst, eins og hér hefur komið fram í máli hv. þingmanna Samfylkingarinnar, að Samfylkingin hefur í sjálfu sér haft ákveðna skoðun, líkt og jafnaðarmenn alltaf, á Íbúðalánasjóði. Við erum ekkert að víkja frá þeirri skoðun þrátt fyrir að málefni Íbúðalánasjóðs megi alltaf vera til umræðu og endurrýni og sérstaklega í ljósi þess sem hér kom fram varðandi samkeppnismál og ef það er svo að mönnum þykir að um ójafnan leik á markaði sé að ræða þá er rétt að skoða það. Ég held að allir hv. þingmenn geti tekið undir það.

Hins vegar vil ég víkja að þeim hluta sem snýr að verðbólgumarkmiðunum og hvað þau varðar er ég algerlega ósammála umræddum hv. þingmönnum sem skrifuðu blaðagreinina. Ég tel að meðan við fylgjum eftir peningamálastefnu Seðlabankans eins og Seðlabankinn gerir, miðað við það sem hefur verið lagt upp með, þá eigum við að horfa á það að ná verðbólgunni niður og ég hvet ykkur til að skoða í ykkar ranni orð umliðinna ára og áratuga þegar við ræðum um verðbólguna, hvernig verðbólgan getur seilst í vasa láglaunafólks og ekki síður fyrirtækja sem starfa á markaði.