135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:56]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að þakka sessunautum mínum fyrir það þótt þeir vakni, hv. þingmenn Illugi Gunnarsson og Bjarni Benediktsson, sem sitja mér báðir á hægri hönd. Við erum höfum reynt mánuðum saman, allan tímann sem núverandi ríkisstjórn hefur starfað, að vekja stjórnarliðana. Hvaða mál er það þó að tveir menn af 43 opni loksins augun fyrir þeim veruleika sem blasir við á Íslandi?

Ég var að lesa skemmtilega lesningu í gærkvöldi, Litlu gulu hænuna , og mér finnst að við höfum verið í hlutverki litlu gulu hænunnar í þinginu við að brýna stjórnarliðana. Hver vill búa til brauðið? Svínið hefur alltaf sagt: Ekki ég. Hundurinn hefur sagt: Ekki ég. Og kötturinn hefur líka sagt: Ekki ég. Það þarf ekkert að gera, hafa þeir sagt.

Nú liggur fyrir að það þarf að baka brauðið. Allar erlendar eftirlitsstofnanir, Seðlabankinn, atvinnulífið og verkalýðshreyfingin eru á nákvæmlega sömu skoðun og við framsóknarmenn í því alvarlega máli að fá hæstv. forsætisráðherra, ráðherrana og ríkisstjórnina til að opna augun. Nú hafa tveir menn úr þeirra liði opnað augun. Það sýnir að ekki er samstaða lengur um að gera ekki neitt. Það er ekki samstaða lengur um að hafa verðbólguþjófinn á fullum krafti að stela úr veskjum fólksins. Kannski vakna stjórnarliðar og vilja taka á málinu eins og við höfum margoft bent á. Morgunblaðið gerði grín að okkur í stjórnarandstöðunni í haust og sumar þegar við vorum að tala um efnahagsvanda. Bandaríkjamenn voru vaknaðir fyrir löngu, í sumar, til að búa sig undir kreppuna. Vandinn var ærinn hér heima fyrir í verðbólgu og þeirri þróun. Það var bara ekki hlustað. Ég segi guði sé lof að tveir af 43 þingmönnum (Forseti hringir.) hafa það frelsi að opna augun og taka undir með okkur framsóknarmönnum, hæstv. forseti.