135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

útflutningur á óunnum fiski.

407. mál
[14:27]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að öllum ráðum sé beitt til að sem mest af þeim afla sem fiskast hér við land sé unninn innan lands. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda að með því að flytja út óunninn fisk eru menn í reynd að flytja út störf. Þess vegna tel ég að það sem skipti öllu máli sé að það sé jafnræði með Íslendingum og þeim sem kaupa að utan til þess að verða sér úti um þennan fisk. Þess vegna tel ég að það sé mjög jákvætt hjá hæstv. ráðherra að ætla að beita sér fyrir því að nefndin sem nú er að störfum flýti lyktum starfa sinna. Ég tel að það sé út af fyrir sig hægt að skoða það að fella niður þetta álag eins og búið er að gera ef samhliða er beitt þeim ráðum að jafna stöðu Íslendinga á við útlendinga. Með öðrum orðum, að tryggja það að landsmenn hafi sömu tækifæri til að bjóða í og verða sér úti um aflann sem núna er fluttur út eins og þeir sem kaupa hann úti. Það held ég að skipti öllu máli.