135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

útflutningur á óunnum fiski.

407. mál
[14:30]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu en vil aðeins vekja athygli á nokkrum atriðum. Það er í fyrsta lagi að sú nefnd sem ég vísaði til hefur verið að störfum að mínu mati og eftir því sem ég hef upplýsingar um af miklum krafti og hefur heimsótt aðila eins og ég rakti hér áðan. Hún hefur því klárlega haldið miklu fleiri fundi en einn og m.a. farið í heimsókn á Humber-svæðið þar sem þessi sala á sér stað.

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson spurði mig líka hvort málaferli væru í gangi. Mér er ekki kunnugt um að svo sé. Hins vegar veit ég að mönnum var ljóst að samkeppnisyfirvöld höfðu talið í úrskurði sínum, í áliti sínu, að þetta útflutningsálag stæðist einfaldlega ekki samkeppnislög, færi í bága við samkeppnislög og það vissu menn um og ég geri ráð fyrir því að þeir sem hafa verið með það í huga að hefja mál á hendur ríkinu hafi m.a. haft það í huga.

Það er líka alveg ljóst mál sem við sjáum af þessum tölum, 50 þúsund tonnum og þar af meira sem var verið að flytja út ár eftir ár, að útflutningsálagið kom ekki í veg fyrir þennan útflutning. Það virkaði einfaldlega ekki enda sáum við það nú í haust þegar útflutningsálagið var afnumið að þá voru uppi miklar hrakspár um að nú mundi þetta allt fara úr böndunum. Það komu bréf frá kaupendum að ferskum fiski úti í Bretlandi sem hlökkuðu mjög yfir því að nú mundu þeir aldeilis fá fiskinn í sínar hendur. Það hefur ekkert gerst. Það er að vísu rétt að ýsan hefur aukist og þorskurinn um 200 tonn eða um það bil, held ég að það hafi verið sem hann hefur aukist. Ég er ekki að gera lítið úr því. En allar hrakspárnar rættust ekki og við sjáum að útflutningur á ferskum karfa minnkaði, útflutningur á ferskum steinbít minnkaði. Ef útflutningsálagið hefði haft þau áhrif sem menn voru að tala um þá hefði þetta auðvitað ekki gerst, þá hefði þetta einmitt átt að aukast, bæði með karfann og steinbítinn.

Sama er varðandi rýrnunina sem hv. þm. Atli Gíslason nefndi. Ég rakti að það liggja fyrir mælingar sem segja okkur að rýrnunin á sér fyrst og fremst stað á fyrsta sólarhringnum eftir að fiskurinn er veiddur en ekki nema í agnarlitlum mæli meðan verið er að flytja fiskinn héðan á markaði erlendis.