135. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[14:48]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Mér þykir farið inn á afar vafasama braut í þessu máli þar sem hv. þingmaður segir og tekur af öll tvímæli um þessa setningu að þessir aðstoðarmenn skuli fá alla almenna skrifstofuþjónustu eins og starfsmenn þingsins. Hann orðaði það þannig, hann sagði sömu aðstöðu og væru þeir starfsmenn þingsins. Það á því að veita aðstoðarmönnum þingmanna sömu aðstöðu og veitt er þeim opinberu starfsmönnum sem starfa á skrifstofum Alþingis og skrifstofum þingflokkanna.

Mér þykir alveg með ólíkindum að búin sé til gjá á milli aðstoðarmanna þingmanna, sem verða ráðnir með þeim hætti sem hér er lýst, og þeirra ritara þingmanna sem starfa nú þegar sem opinberir starfsmenn á skrifstofum þingflokkanna. Mér þykir það með miklum ólíkindum og ég held að hér sé farið inn á mjög vafasamt spor. Ég nefni bara jafnræðisreglu í þessu sambandi því að ritarar á skrifstofum þingflokkanna hafa sinnt störfum sem fyrirsjáanlega verða nú í auknum mæli sett yfir á þessa aðstoðarmenn þingmannanna.