135. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[14:50]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ummæli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur mótast af misskilningi en til að það sé alveg skýrt þá er hugmyndin sú að það verði einungis formenn stjórnmálaflokkanna sem hafi pólitíska aðstoðarmenn sína hér á þinginu. Það er ljóst að hlutverk þeirra verður með allt öðrum hætti en annarra starfsmanna þingsins af því að um er að ræða pólitíska aðstoðarmenn. Það er ekki hægt að bera störf þeirra saman við störf þeirra starfsmanna þingsins sem þegar vinna að ýmsum verkefnum í þágu þingsins og einstakra þingmanna eftir því sem verkefni falla til. Þarna er um að ræða pólitíska aðstoðarmenn sem hafa stöðu fyrir utan kerfið en hins vegar er gert ráð fyrir því að þeir njóti almennrar skrifstofuþjónustu, að það verði svarað í síma fyrir þá eftir atvikum og að þeir geti nýtt sér skrifstofuaðstöðu hér eftir því sem eðlilegt er.

Í dag er um að ræða þrjá aðstoðarmenn sem koma inn í þingið. Aðstoðarmenn annarra þingmanna en formanna stjórnarandstöðuflokkanna munu ekki fá aðstöðu hér í þinginu. Mér finnst eiginlega alveg fráleitt að tala um að verið sé að búa til einhverja gjá á milli manna eða brjóta jafnræðisreglu þó að þessu sérstaka fyrirkomulagi sem er nýtt, að formenn stjórnarandstöðuflokka fái pólitíska aðstoðarmenn með þessum hætti, sé komið á og það sé á einhvern hátt verið að vega að eða gera hlut starfsmanna þingsins verri. Ég vísa algjörlega á bug öllum vangaveltum í slíka átt.