135. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[15:24]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Varðandi þingskapaumræðuna sem fór fram fyrir jól var á ákveðnu stigi eða frumstigi þess máls dreift skjali til þingflokksformanna sem var merkt trúnaðarmál. Að sjálfsögðu tók ég það upp í mínum þingflokki. Það eru rædd trúnaðarmál í hverjum einasta þingflokki. Þar fórum við yfir þær reglur og maður bara innheimti síðan pappírana þegar búið var að fara yfir það. Það eru alþekkt vinnubrögð í þingflokkum.

Frumvarpið sem við erum að fjalla um núna er ekki flókið. Þetta eru tvær greinar. Fyrsta greinin fjallar um aðstoðarmennina og önnur grein hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Þetta er eiginlega bara ein grein sem er efnisgrein. Auðvitað geta greinar verið mjög flóknar. En þetta er ekki mjög flókið mál, virðulegur forseti.

Varðandi það að hv. þingmaður hefur ekki getað tekið upp í sínum þingflokki það sem fram kemur í nefndarálitinu um að við sjáum fyrir okkur að þetta kerfi nái líka til þingmanna á suðvesturhorninu þá kom það alveg skýrt fram í ræðu hæstv. forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssonar, þegar hann flutti málið hér fyrst að við værum að stíga fyrsta skrefið í þá átt að styrkja stöðu þingmanna. Ég held að allir hafi gert sér grein fyrir því að þetta væri fyrsta skrefið sem við værum að stíga núna. Tökum landsbyggðarþingmennina fyrst og svo látum við kerfið ná yfir aðra. Það er ekkert sem á að koma mönnum í opna skjöldu.

Ég geti því ekki fallist á það, virðulegur forseti, að við séum að vinna málið hér illa og að það sé tekið í gegn með hraði né að í allsherjarnefndinni hafi hver einasti þingmaður verið með miklar athugasemdir. Ég get ekki tekið undir það. Umræðan í allsherjarnefndinni var algjörlega eðlileg að mínu mati.