135. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[15:33]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Jón Magnússon) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 2. minni hluta allsherjarnefndar og vil taka undir með hv. þm. Atla Gíslasyni varðandi þann mikla hraða sem var við meðferð málsins í allsherjarnefnd. Ljóst var að það var vilji mikils meiri hluta allsherjarnefndar að afgreiða málið með þeim hætti og því engin ástæða til annars fyrir okkur sem erum í minni hluta en að gera okkar til að málið gæti fengið þinglega meðferð. Þannig vildi ég standa að málum og ekki síst vegna þess að það liggur fyrir að ég hef algjöra sérstöðu í mínum þingflokki þar sem meiri hluti þingflokksins vill standa að frumvarpinu sem hér liggur fyrir.

Ég hef gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, gerði það ítarlega við 1. umr. þegar málið var lagt fram. Ég hef líka gengið frá ítarlegu nefndaráliti sem fjallar um þau sjónarmið sem ég tel mestu máli skipta hvað þetta varðar. Það getur verið misbrýnt að afgreiða mál með hraði og það var sem sagt mat meiri hlutans að þessu verki skyldi hraða sem mest mætti verða. Hraðinn bitnaði hins vegar á því að því var hafnað að kalla fyrir — annars vegar fór hv. þm. Atli Gíslason fram á að athugað yrði með starfslið Alþingis, stöðu þess og hvaða afstöðu það hefði til frumvarpsins. Jafnframt fór ég að gefnu tilefni fram á — þar sem ég tel að það standist ekki ákvæði stjórnarskrár að mismuna þingmönnum með þeim hætti sem gert er ráð fyrir — að kallaðir yrðu fyrir prófessorar þeirra háskólsa sem tiltækir væru í stjórnskipunarrétti og farið yrði yfir þau sjónarmið sem um væri að ræða. Það skiptir máli, það er grundvallaratriði, að Alþingi vandi lagasmíð svo að ekki séu tvímæli um að rétt sé að staðið gagnvart stjórnarskrá.

Ég leyfi mér að efa að svo sé, ég skal ekki kveða fastar að orði. Þrátt fyrir að að sjálfsögðu sé munur á því hvað þingmenn mismunandi kjördæma hafa að gera er það samt sem áður grundvallaratriði að þingmenn eru kjörnir sem þingmenn þjóðarinnar, þeim ber að setja þjóðinni lög en ekki einstökum kjördæmum. Þingmenn eru kjörnir af fólki fyrir fólk en ekki fyrir akra, engi eða ferkílómetra. Það er grundvallaratriði og skoða verður hlutina í því ljósi. Ég tel því, eins og gert er ráð fyrir og fjallað var um í framsöguræðu fyrir frumvarpinu, að um óeðlilega mismunun sé að ræða og álít eðlilegt og nauðsynlegt að við öflum sem bestra sérfræðigagna í málinu.

Ég álít að þetta sé brot á íslensku stjórnarskránni en það er nú einu sinni þannig að enginn er dómari í sjálfs sín sök. Eins og allir vita gilda líka mismunandi sjónarmið að lögum varðandi úrlausn og úrslit einstakra mála. Æðsti dómstóll landsins er ekki alltaf einhuga í niðurstöðu sinni þó að einn dómari landsins hafi tjáð þá skoðun sína að aldrei sé til nema ein rétt niðurstaða, sem kann vel að vera rétt. Þar af leiðandi taldi ég að það væri grundvallaratriði og nauðsynlegt að gengið væri frá þessu og úr þessu væri skorið með viðunandi hætti þannig að fyrir lægi, og tekin af um það öll tvímæli, að verið væri að afgreiða lög frá Alþingi sem væru vönduð og engin spurning hvort um brot á ákvæðum stjórnarskrár gæti verið að ræða varðandi það hvernig farið yrði með. Við þessu var ekki orðið og mér finnst það miður. Ég tek undir með hv. þm. Atla Gíslasyni, ég vona að milli 2. og 3. umr. gefist tóm til að kanna þessi atriði sérstaklega.

Í umfjöllun nefndarinnar var vísað til þess að um væri að ræða ákveðið samkomulag sem gert hefði verið við breytingu á kjördæmaskipuninni á þann veg að bæta aðstöðu landsbyggðarþingmanna. Það kann vel að vera rétt og kannski full ástæða til þess. En þá ber þess að geta að frá árinu 2000 hafa stjórnmálaflokkarnir skipt á milli sín 50 milljónum sem áttu að vera sérstök greiðsla vegna landsbyggðarinnar. Mér er ekki kunnugt um með hvaða hætti þeirri greiðslu, þessum 50 milljónum árlega frá árinu 2000, hefur verið skipt innan flokkanna eða milli flokkanna eða hvernig það hefur komið út. Það skiptir kannski ekki öllu máli núna vegna þess að við erum að fást við ákveðið viðfangsefni sem er annars eðlis, en það þýðir ekkert að skírskota til einhvers samkomulags sem gert var í fyrndinni, því að við sem löggjafi erum ekki bundin af því samkomulagi. Það hefur í sjálfu sér ekkert með störf okkar eða annað það að gera með hvaða hætti og hvernig við setjum þjóðinni skynsamlega löggjöf og ákveðum lögkjör alþingismanna miðað við daginn í dag. Það er það sem er höfuðatriðið, viðfangsefnið sem við er að glíma.

Í nefndinni var þó fjallað um með ákveðnum hætti hvernig skipulag aðstoðarmanna þingmanna er á Norðurlöndum. Ég fór fram á að þau lög, þ.e. lög í Danmörku, Svíþjóð og Noregi, yrðu lögð fram sérstaklega þannig að nefndarmenn gætu farið í gegnum þau og kynnt sér þau. Ekki var orðið við því en menn geta eftir sem áður aflað sér þeirra.

Það er nú svo merkilegt að þrátt fyrir að Ísland sé stórt og víðlent háttar þannig til á sumum Norðurlandanna að þar er um enn stærri og víðlendari lönd að ræða. Í Noregi er jafnlangt frá syðsta oddanum til þess nyrsta eins og frá syðsta oddanum til Rómar á Ítalíu. Þingmenn þurfa að leggja á sig mikil ferðalög í Noregi ekki ólíkt því sem hér er. Þetta er nákvæmlega með sama hætti í Svíþjóð. Um miklu meira víðlendi og dreifðari mannfjölda er að ræða í þessum löndum en nokkurn tíma hér þar sem 2/3 af kjósendum landsins búa í u.þ.b. klukkutíma akstursfæri frá höfuðstöðvunum, eða Alþingi Íslands. Það er nú ekkert flóknara en það. Möguleikinn á að hafa samband við stóran hluta kjósenda er því ekki flókinn. Það er aftur á móti þessi litli minni hluti sem spurningin er um og á að sjálfsögðu að njóta allra réttinda.

Við erum að setja lagaákvæði og þegar verið er að setja lög sem þessi er ekki verið að tjalda til einnar nætur og þá er það alltaf spurning hvort við séum að fara rétta leið í lagasetningu. Ég hefði talið mikilvægast í þessu sambandi að höfuðáherslan yrði á það, eins og hæstv. forseti Alþingis benti á sérstaklega, í umræðu um breytingu á þingskapalögunum fyrir áramót og síðan við framlagningu þess frumvarps sem hér er um að ræða, að styrkja stöðu stjórnarandstöðunnar. Með vissum hætti er verið að bregðast við því. Með hvaða hætti? Jú, með því að formenn þeirra stjórnmálaflokka sem ekki sitja í ríkisstjórn megi ráða sér aðstoðarmann. Það er mjög mikil framför og nauðsynleg. Spurningin er sú hvort ganga hefði þurft lengra á því sviði.

Ég tel að í raun hefði átt að hugsa þessa aðstoð með þeim hætti, af því að við erum að tala um stjórnmálaflokka sem ákveðna einingu, að styrkja þingflokkana og þá sérstaklega þá þingflokka sem þurfa mest á því að halda, þ.e. stjórnarandstöðuflokkana. Þannig er það á sumum Norðurlöndunum að bæði minni flokkar og flokkar í stjórnarandstöðu fá aukna aðstoð, eiga meiri möguleika á því að fá aðstoð en þeir flokkar sem eru í stjórn og/eða stærri flokkar. Ég hefði viljað að þetta allt yrði skoðað þannig að gengið yrði frá vandaðri fullnaðarlöggjöf um það með hvaða hætti þessu væri fyrir komið. Ég hygg að með því að gera það með þeim hætti hefði verið möguleiki á því að ganga þannig frá málinu að allir gætu sætt sig við það.

Nú má enginn skilja orð mín svo að ég telji ekki að veruleg réttarbót sé að ýmsu sem fram kemur í því frumvarpi sem hér er um að ræða eins og reyndar má lesa út úr nefndaráliti mínu. Þó eru vissar hættur í því sem þar er um að ræða. Það er umhugsunarefni þegar Alþingi ákveður þeim stjórnmálaflokkum sem á Alþingi sitja fjárveitingar og síðan viðbótarfjárveitingar nánast á hverju einasta ári. Eðlilegra væri að fundin yrði önnur leið því eins og ég sagði í upphafi þá er enginn dómari í sjálfs síns sök. Eðlilegra væri að annar aðili hefði alla vega eitthvað um það að segja.

Varðandi það hvernig þessu er háttað á öðrum Norðurlöndum, hvernig skipulag aðstoðarmanna þingmanna er þar, er athyglisvert að í þeim löndum sem við erum skyldust hvað snertir lagahefð, í Danmörku og í Noregi, geta þingmenn ráðið sér starfsmann en það er þó þannig að helmingur upphæðarinnar er eyrnamerktur hverjum þingmanni en helmingurinn er í höndum þingflokksins. Í Noregi er staðan sú að Stórþingið leggur þingflokkunum til fé sem svarar til þess að þeir geti ráðið einn aðstoðarmann fyrir hvern þingmann. Aðstoðarmennirnir eru þó ekki bundnir neinum sérstökum þingmanni, fremur að þeir sérhæfi sig í verkefnum hverrar nefndar og vinni því með þingmönnum flokksins á þeim vettvangi.

Í þessum tilvikum báðum, sérstaklega í Noregi er litið til þess að aðstoða þingmennina málefnalega við þau málefni sem þeir fást við í störfum sínum sem alþingismenn, hvernig sé auðveldast og best að koma hlutum fyrir þannig að þeir geti sinnt sínum störfum sem best. Það skiptir máli hér og þannig hefðum við átt að standa að lagasmíðinni.

Í Svíþjóð er staða stjórnarandstöðunnar styrkt sérstaklega enn frekar og miðað er við að þingflokkarnir myndi heild, ráði til sín starfsfólk sem sé fullnægjandi fyrir þau málasvið sem um þarf að fjalla. Þau sjónarmið hefði ég viljað sjá, að staða stjórnarandstöðuflokka og minni flokka yrði styrkt þannig að flokkarnir hefðu getað vélað um það miklu auðveldara en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi sem hér liggur fyrir hvernig skyldi með fara.

Til viðbótar þessu tel ég mjög mikilvægt að efla nefndasvið Alþingis. Það var upplýst á fundi nefndarinnar að það yrði gert og það er mjög til bóta og ber að fagna því. Ég tel alla vega miðað við aðstæður að þar sé um ásættanlega breytingu að ræða. Ég vil taka það fram að þó að ég geri athugasemdir og fyrirvara við þetta frumvarp þá vil ég lýsa því yfir ítrekað að ég tel að hæstv. forseti Alþingis hafi unnið góð störf að þoka þessum hlutum þó til ákveðins vegar til hagsbóta fyrir stjórnarandstöðuflokka á Alþingi. Það er af hinu góða og ber að þakka eins og ég sagði.

Þá kemur spurningin um stöðu þingmannanna og ég hef litið til þess að mikilvægast í því sambandi væri að ráða sérhæft starfsfólk sem gæti verið málefnalega til aðstoðar fyrir þingflokkana.

Ég hef líka lagt áherslu á það, virðulegi forseti, að það sé grundvallaratriði — ég kem aftur að því í ræðu minni — að þingmönnum sé ekki mismunað. Í því sambandi er líka mjög mikilvægt að lagaákvæði um lögkjör þingmanna séu skýr þannig að sem minnst af geðþóttaákvörðunum einhvers annars, til dæmis forsætisnefndar, komi til varðandi lögkjör alþingismanna. Það er miklu eðlilegra að löggjafinn sjálfur taki ákvörðunina hverju sinni um það með hvernig skuli fara, hvað skuli gert og hvaða kjör þingmenn hafa. Með breytingartillögu meiri hluta allsherjarnefndar er að mínu viti gengið enn lengra en var gert í frumvarpi forsætisnefndarinnar í að framselja löggjafarvaldið, heimila ákvarðanir forsætisnefndar eftir þeim ákvæðum sem þar kveður nánar á um.

Ég tel eðlilegt að aðstoðarmenn sem ráðnir yrðu yrðu hluti starfsliðs þingflokks hvort sem þeir heyrðu með einum eða öðrum hætti undir einstaka þingmenn eða aðra, en að þeir yrðu hluti starfsliðs sem skapaði ákveðna starfræna heild. Ég benti á það líka að það væri spurning, ef menn vilja hafa ákvæðið eins og hér er lagt til, að láta aðstoðarmannakerfið eingöngu ná til þingmanna nokkurra kjördæma, að þá yrði gerð grein fyrir því með fullnægjandi hætti eins og hæstv. forseti Alþingis sagði í framsöguræðu sinni er hann mælti fyrir frumvarpinu, að vel gæti komið til þess að gerð yrði breyting og ég vek athygli á því að í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar er sérstaklega vikið að því. Það var að vísu sett inn í — og það sýnir hver hraðinn var í málatilbúnaðinum að reyna að koma þessu áfram — að nefndarálitið var kynnt en síðan þurfti að bæta inn í viðbótarmálsgrein, sem er nú af hinu góða. En það hefði kannski getað breytt einhverju ef hún hefði komið fyrr, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Allsherjarnefnd ræddi talsvert fyrirkomulag varðandi ráðningu aðstoðarmanna þingmanna. Meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á að boðað hefur verið að hér sé verið að stíga fyrstu skrefin“ — það er sem sagt vakin sérstök athygli á því að verið sé að stíga fyrstu skrefin — „í þá átt að auka aðstoð við þingmenn almennt.“ (Forseti hringir.)

Síðan segir ...

(Forseti (ÞBack): Forseti biðst forláts en spyr hvort hv. þingmaður eigi mikið eftir af ræðu sinni.)

Svona um það bil 12 mínútur og 21 sekúndu.

(Forseti (ÞBack): Nú vill forseti tilkynna að fyrr á þessum fundi var ákveðið að hafa atkvæðagreiðslu núna rétt fyrir klukkan fjögur og er þá komið að því þannig að umræðu um þennan dagskrárlið er frestað.)

Að sjálfsögðu lýt ég forsjá virðulegs forseta.