135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

veiðar í flottroll.

[10:42]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að þau gleðitíðindi bárust okkur í gær að tekist hefði að mæla það mikið magn af loðnu að hægt var að gefa út kvóta að nýju og ég veit að allir fagna því. Þetta skiptir okkur miklu máli fyrir atvinnulífið vítt og breitt um landið og það skiptir ekki síst máli í ljósi þess að loðnan er svo þýðingarmikill hluti eða þáttur í fæðuöflun þorsksins að auðvitað var það fullkomið áhyggjuefni bara af þeim ástæðum að ekki hafði tekist að mæla nægilega mikið magn.

Ég veit að hv. þingmaður veit það eins og ég að það er mikill ágreiningur um flottrollsveiðarnar á loðnunni og við höfum látið fara fram ýmsar rannsóknir á þeim málum sem m.a. áttu sér stað á síðasta ári í framhaldi af því að við höfum verið að reyna að auka veiðarfærarannsóknirnar í landinu.

Ég tók þá ákvörðun á árinu 2006 að takmarka mjög flottrollsveiðarnar á loðnu einmitt til að mæta sjónarmiðum eins og þeim sem hv. þingmaður gerði hér að umræðuefni og ég tel að það hafi skilað árangri. Alla vega var það svo að á fiskveiðiárinu 2006/2007 gekk loðnan vestur með suðurströndinni en það hafði hún ekki gert í sama mæli einhver ár þar á undan og sama göngumunstur er á loðnunni núna. Ég tel því að þær breytingar sem við gerðum þarna hafi skilað árangri eða a.m.k. stuðlað að því. Ég tel að það sé sjálfsagður hlutur núna í ljósi þeirra rannsókna sem hafa farið fram á virkni flottrollsins að fara yfir þessi mál að nýju og það verður að sjálfsögðu gert.

Hv. þingmaður spurði síðan um þorskinn. Það er að hefjast núna einmitt þessa dagana viðurhlutamesta togararall sem nokkru sinni hefur verið framkvæmt. Eins og við vitum var ákveðið að auka mjög fjármagn til þeirra rannsókna í tengslum við niðurskurðinn á þorskinum á síðasta ári. Settir voru niður togpunktar í samstarfi sjómanna og vísindamanna og ég vona svo sannarlega að það skili okkur betri og öruggari rannsóknum á stöðu þorskstofnsins.