135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

veiðar í flottroll.

[10:44]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Já, flottrollið er að mínu mati það sem hefur gert það að verkum að ástand á loðnustofninum er ekki betra en raun ber vitni og ég held að hægt sé að skoða þetta í sögulegu samhengi 10–15 ár aftur í tímann. Þegar menn fóru að nota flottroll að einhverju gagni fór að halla undan fæti hjá loðnustofninum og er auðvitað mjög sorglegt að menn skuli ekki hafa kveikt á því og að alltaf skuli þurfa að benda mönnum á þetta, og eins og forstjóri Hafrannsóknastofnunar hefur stundum sagt, það er alltaf dregið úr og reynt að tefja þessar niðurstöður. En nú eru komnar vísindalegar niðurstöður á þessu, rannsóknir sem fóru fram síðastliðið haust sýna að það er bara hægt að hirða einn þriðja af því sem er drepið.