135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

styrkur til lýðheilsurannsókna.

[10:49]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigfúsi Karlssyni fyrir að vekja athygli á málum sem tengjast rannsóknum í tengslum við heilbrigðismál og forvarnamál. Þær eru afskaplega mikilvægar, ekki skal gert lítið úr því. Þvert á móti held ég að það sé mikilvægt fyrir okkur að efla þær ef við ætlum að ná árangri og við Íslendingar höfum svo sannarlega verið framarlega þegar kemur að verkefnum sem þessum og höfum vakið athygli á alþjóðavettvangi.

Ég held hins vegar að besta leiðin í þessu almennt sé að við eflum og styrkjum samkeppnissjóði okkar og það er eðlilegur framgangsmáti að þeir sem standa í rannsóknum sæki fjármagn sitt þangað. Það er almenna reglan og ég held að flestir sem að þessum málum koma séu sammála því að best sé að haga málum þannig.

Þeir sem sinna þessum verkefnum, hvort sem það er í Háskólanum á Akureyri eða á vísindastofnunum, þekkja þau vinnubrögð vel og eru hæfir til þess að vinna í því umhverfi og hafa sýnt það og sannað.

Ráðuneytið hefur ekki skipt sér af einstökum ákvörðunum hjá stofnunum sínum hvað þessa hluti varðar. En eins og hv. þingmaður vísaði til er til staðar Forvarnasjóður sem mér skilst að þeim, sem hafa haft áhuga á því að sækja um og sinna verkefnum, hafi verið bent á að sækja um í. Ef ekki er nógu skýrt hvort hægt er að sækja til um styrk margra ára, finnst mér alveg sjálfsagt og eðlilegt að (Forseti hringir.) skoða þá þætti. Margar af þessum rannsóknum eru nefnilega til langs tíma, eins og þingmaðurinn nefndi.