135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

styrkur til lýðheilsurannsókna.

[10:53]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikið sóknarfæri fyrir Háskólann á Akureyri og aðrar menntastofnanir og rannsóknaraðila hér á landi að við séum með öfluga samkeppnissjóði. Það er sanngjarnasta og eðlilegasta leiðin. Ég veit í það minnsta ekki um betri leið til þess að útdeila fjármagni sem svo sannarlega eru alltaf fleiri um en þeir sem úthlutað er til.

Hins vegar er það vilji okkar allra hér inni að efla og styrkja þá góðu stofnun sem Háskólinn á Akureyri er. En það er spurning hvaða leiðir menn fara. Mín skoðun er sú að við eigum að efla og styrkja samkeppnissjóði, það sé sanngjarnasta og eðlilegasta leiðin. Þar eiga allir þeir sem stunda rannsóknir að standa jafnt að vígi þegar kemur að slíku því að þörfin er brýn. Það er afskaplega nauðsynlegt að við sinnum þessum hlutum, að okkar færasta fólk geri það. Það er m.a. afskaplega fært fólk í Háskólanum á Akureyri, eins og menn þekkja.