135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

virðisaukaskattur á lyf.

[11:03]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að vekja athygli á þessum mikilvægu málum. Það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, það er verk fyrir okkur að vinna að því að ná lyfjakostnaði niður. Ég hef lýst því yfir að ég ætli að sjá til þess að lyfjakostnaður minnki, bæði hjá hinu opinbera og hjá þeim sem þurfa á lyfjum að halda og það er svo sannarlega mikil kjarabót.

Vandinn í hnotskurn er sá að það er svolítið öðruvísi með þessa Evrópuverslun, ef þannig má að orði komast, en aðra vöru. Þegar við gengum inn í EES opnaðist markaðurinn í það heila fyrir flestar vörur og þjónustu sem við notum ef undan eru skilin lyf, það eru enn jafnmargir litlir markaðir á Evrópska efnahagssvæðinu og löndin eru mörg. Það er einstaklega slæmt fyrir okkur Íslendinga vegna þess að við erum einungis rétt rúmlega 300 þús. sem gerir það að verkum að áhugi aðila á að flytja hingað lyf og selja er minni en á stærri markaðssvæðum. Ég hef rætt þessi mál og borið fram hugmyndir mínar bæði hjá kommissörum Evrópusambandsins og sömuleiðis kollegum mínum á Norðurlöndunum og velt þar upp ákveðnum hugmyndum og aðgerðum sem ég mun beita mér fyrir. Þingmenn munu sjá þær, að ég tel í næstu viku, í formi lagafrumvarps sem miðar að því að opna íslenska markaðinn og auka samkeppnina.

Hv. þingmaður minntist á annan mjög mikilvægan þátt sem er virðisaukaskatturinn. Það er afskaplega æskilegt og mikilvægt að lækka virðisaukaskattinn á lyfjum, ekki ætla ég að gera lítið úr því, en fleiri þurfa að koma að þeirri ákvörðun en einungis sá sem hér stendur. Eins og hv. þingmaður veit er ríkisstjórnin sem nú situr mikil skattalækkanaríkisstjórn þannig að við skulum sjá hvað verður.