135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

virðisaukaskattur á lyf.

[11:05]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra svo langt sem þau náðu. Fyrirspurn mín beindist að því hvenær ríkisstjórnarflokkarnir hygðust lækka eða jafnvel afnema virðisaukaskatt af lyfjum og því miður virðist ekki vera forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar að ráðast í þá skattalækkun því að ekkert er kveðið á um það í yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar að menn ætli sér að ganga þá leið sem sjálfstæðismenn mæltu fyrir í aðdraganda síðustu kosninga, þ.e. að afnema virðisaukaskatt af lyfjum.

Ég hvet hins vegar ráðherrann til allra góðra verka og lýsi yfir stuðningi við stefnumið hans um að við lækkum verð á lyfjum hér á landi, m.a. með því að minnka skattálögur hvað þessi mál áhrærir. Við framsóknarmenn töluðum fyrir því í aðdraganda síðustu kosninga að við mundum lækka virðisaukaskatt af lyfjum og við munum standa með stjórnvöldum ef þau ætla sér í þá vegferð, sem ég vona að þau geri, en því miður eru engin loforð uppi um það enn þá eða afdráttarlausar yfirlýsingar. Því miður.