135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

virðisaukaskattur á lyf.

[11:06]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi er það forgangsmál hjá þessari ríkisstjórn að ná niður lyfjakostnaði, það er forgangsmál. Eftir því hefur verið unnið, það er ekki einfalt mál. Ef það væri einfalt mál væri örugglega löngu búið að gera það. Ég treysti því og trúi, af því að það kom fram hjá þessum ágæta hv. þingmanni, að hann muni styðja okkur í þeirri vegferð sem við erum að fara í hvað það varðar því að það er afskaplega mikilvægt að það sé breið pólitísk samstaða um það verkefni. Eins og ég nefndi er ástæða fyrir því að við erum búin að vinna að því þá níu mánuði frá því að ríkisstjórnin tók við og ég tók við embætti heilbrigðisráðherra. Málið er ekki einfalt og það er ekki einu sinni bara í höndum okkar Íslendinga þar sem við erum í Evrópska efnahagssvæðinu eins og menn þekkja.

Einn þátturinn sem kemur að þessum málum er virðisaukaskattur á lyfjum, ég ætla ekki að gera lítið úr því og er alveg á því, eins og hv. þingmaður, að sjá þá skattalækkun. Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að ég er ekki með neina tímasetningu hvað það varðar.