135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[12:16]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þó að ég eigi ekki sæti í utanríkismálanefnd þá er erfitt að standast það að taka þátt í hinum mikla sameiginlega fögnuði hér eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson vitnaði til og í raun og veru ánægjulegt að heyra frá forsvarsmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hversu óverulegar og litlar athugasemdir þeir hafa við það stóra og mikilvæga framfaraskref í þróunarsamvinnunni sem hér er á ferð. Auðvitað hefur hlutur okkar í henni oft áður sætt gagnrýni en ég held að það megi segja að þannig sé nú á henni haldið að um hana sé breið samstaða, þverpólitísk samstaða og auðvitað mikil ánægja með þau skref sem hafa verið stigin til þess að auka fjármuni í þróunarsamvinnuna sem var löngu tímabært á síðustu árum og ekki síst núna hin allra síðustu missiri í þeirri stefnumörkun sem hæstv. utanríkisráðherra er að skila inn í þingið í formi þessa lagafrumvarps.

Ég held að frumvarpið endurspegli að mörgu leyti ýmsar af áherslum nýrrar ríkisstjórnar í landinu sem er í fyrsta lagi auðvitað sú sem við eigum öll sameiginlega hér í þinginu og flestir Íslendingar, að vilja leggja meira af mörkum til þróunarsamvinnunnar og byggja hana upp og gera hana öflugri í alla staði. Og í öðru lagi að efla mjög og styrkja hlutverk Alþingis í bæði stefnumörkun og í eftirliti með framkvæmdarvaldinu.

Ég held að engum blöðum sé um það að fletta að eins og þessum málum hefur hingað til verið skipað, þá hefur að mörgu leyti legið fullmikið vald hjá ráðherranum í málaflokknum. Það er ánægjulegt að sjá framkvæmdarvaldið koma inn í þingið að eigin frumkvæði með tillögur um að þingið taki það hlutverk sem því ber í málaflokknum að móta stefnu, að gera áætlanir og hafa eftirlit með framkvæmdinni. Ég held að við hljótum að fagna því í öllum flokkum á þinginu að þær áherslur séu hjá framkvæmdarvaldinu og að sú áhersla sé hjá stjórn þingsins sem við þekkjum, að auka hlut þingsins, styrkja hlutverk þess og efla stöðu þess að ýmsu leyti.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur nefnt það í umræðunni að hér gæti verið um einhvers konar málamyndasamráð að ræða. Ég vísa því á bug og tel að það lýsi í raun og veru vanmati á Alþingi og alþingismönnum. (Gripið fram í.) Ég minni hv. þingmenn á að ein af þeim fyrirmyndum sem hér má hafa hefur áður verið nefnd í umræðunni og það er einmitt samgönguáætlunin. Ég held að alveg óhætt sé að segja um samgönguáætlunina að hún hlýtur mikla og þverpólitíska umfjöllun í þinginu. Hún er hér til efnislegrar meðhöndlunar og alþingismenn hafa, margir hverjir að minnsta kosti, sterkar skoðanir á henni og ná iðulega fram ýmsum breytingum á henni og hafa veruleg áhrif á útfærslur í einstökum liðum. Ég held að það megi sannarlega binda vonir við það, ef vilji er til þess í þinginu að hafa áhrif á áætlanir í þróunarsamvinnumálum og pólitískur vilji til þess að ná því fram, að þetta sé tækifæri bæði til þess að leggja til stefnumörkunarinnar og áætlanagerðarinnar. En ég held að það sé ekki síður mikilvægt að styrkja eftirlitsþáttinn vegna þess að við þekkjum það, ekki síst þau sem hafa starfað í fjárlaganefnd, að við höfum aukið mjög verulega fjárframlög til þróunarsamvinnunnar á síðustu árum og það er meira en að segja það að halda utan um slíkt, að auka verulega ár frá ári fjárframlög í starfsemi sem við áður höfðum kannski að ýmsu leyti takmarkaða reynslu af. Þar er auðvitað talsverð hætta á að við gerum ýmis mistök í framkvæmdinni og það er mikilvægt að við fylgjumst vel með framkvæmdinni, að við lærum af reynslunni og drögum ályktanir af henni. Ég held þess vegna að það sé gott og mikilvægt í þessu að við sinnum að þessu leyti betur eftirlitsþættinum en verið hefur.

Í þriðja lagi er áhersla ríkisstjórnarinnar á virka þátttöku í alþjóðasamstarfi, sem mér finnst speglast vel í því frumvarpi sem hér liggur fyrir, og það að hér eru lagðir til grundvallar ýmsir alþjóðasáttmálar sem við eigum aðild að og þar með undirstrikað að við högum ekki þróunarsamvinnu eftir geðþótta okkar Íslendinga einna og sér heldur erum við hluti af samfélagi þjóðanna og þær grundvallarleikreglur sem við verðum að ganga út frá í framkvæmd okkar á þróunarsamvinnu eru hinar alþjóðlegu leikreglur sem við höfum tekið þátt í að móta og höfum undirgengist og skuldbundið okkur gagnvart. Þar eru auðvitað ýmsir fleiri þættir en hér hafa verið nefndir sem hljóta að vera undir, m.a. ýmsir mannréttindasáttmálar sem við eigum aðild að. Við erum þannig t.d. að undirbúa innleiðingu á sáttmála í málefnum fólks með fötlun og í ljósi þeirrar stöðu sem fatlaðir hafa í mörgum þeirra ríkja sem við eigum þróunarsamvinnu við þá hlýtur það auðvitað að vera hluti af þeirri mynd að við leggjum áherslu á það í störfum okkar að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðra sé hafður í heiðri í þeim löndum sem við vinnum með og í þeim verkefnum sem við erum að vinna að. Sama máli hlýtur að gegna um varnarsáttmálann og aðra slíka samninga.

Það sem er að ýmsu leyti áhugavert að ræða í tengslum við þróunarsamvinnuna snertir kannski ofurlítið orðið hagsmuni sem hér var nefnt fyrr í umræðunni. Auðvitað er þróunarsamvinnan hagsmunir okkar. Það eru hagsmunir okkar að bæta og efla það samfélag sem við eigum saman í heiminum og að reyna að skapa þar betri lífskjör fyrir alla til þess að þar verði friðvænlegra o.s.frv. Við eigum líka ýmsa beina hagsmuni, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vék réttilega að, og eitt af því sem iðnríkin hafa í vaxandi mæli verið að horfa til eru umhverfismálin og m.a. loftslagsmálin, hvort þau geti í þróunarsamvinnu sinni bætt fyrir syndir sínar með einhverjum hætti. Með öðrum orðum, notað þá fjármuni og það fólk sem verið er að beina í þessi verkefni til þess að ná mikilvægum árangri í stærsta verkefni alþjóðasamfélagsins, umhverfismálunum, í loftslagsmálunum. Þar er það auðvitað svo að við Íslendingar búum yfir ýmsu sem hefur nýst í þeirri vinnu, m.a. Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna sem menn hafa rómað mjög, ekki síst eftir að kannski mesta dollaraglýjan úr orkuútrásinni er runnin af mönnum og við erum farin að horfa til þess og sjá æ betur hversu mikilvægt framlag okkar til þróunarríkjanna og alþjóðasamfélagsins hefur verið í gegnum Jarðhitaskólann. En við eigum líka gríðarlegan þekkingarbrunn til að mynda í landgræðslunni og í því mikilvæga starfi sem þar hefur verið unnið í hundrað ár. Og ég held að það sé alveg sérstök ástæða fyrir okkur í allri umræðu og umfjöllun um þróunarsamvinnu þessi missirin og þau næstu að leggja sérstaka áherslu einmitt á umhverfisþáttinn í því og hvort við getum í gegnum það haft áhrif á þetta stærsta verkefni okkar sem er hlýnunin.

Um þessar minni háttar athugasemdir, að því er mér þóttu, frá hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þá er ég sammála þeim og fagna því að við skulum halda áfram að hafa sérstaka stofnun til að sinna þessu verkefni. Ég held að að sé farsæl og rétt skipan, en ég deili ekki þeim athugasemdum sem þeir hafa haft við það að leggja af stjórn Þróunarsamvinnustofnunar og það þverpólitíska bakland sem sú stjórn eigi að vera. Ég held að það tryggi í sjálfu sér ekki þverpólitískt bakland fyrir stofnanir þó að þær séu skipaðar fulltrúum úr öllum flokkunum heldur geti það jafnvel stundum orðið til þess að færa hin pólitísku áhrif lengra frá Alþingi. Ég held að það sé mikilvægt um málaflokk eins og þróunarsamvinnu, sem er mjög pólitískur málaflokkur á marga lund, að Alþingi einmitt færi þann málaflokk nær sér og láti sér ekki nægja að vera með fulltrúa sína í stjórn stofnunar sem sinni því heldur komi sjálft, eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur hér lagt upp, með öflugum og virkum hætti bæði að stefnumörkuninni og eftirlitinu sem eru í raun og veru tvö meginhlutverk stjórnar hverrar stofnunar.

Ég held að með því móti sé þessum málaflokki gert jafnhátt undir höfði og hann á skilið og hann á stuðning við í samfélaginu, því að það er alveg ótvírætt að sú aukning á þróunarsamvinnu sem verið hefur á undanförnum árum á mikinn stuðning í íslensku samfélagi og Íslendingar hafa mikinn skilning á því, almenningur allur, hversu mikilvægt starf þetta er og taka líka sjálfir beinan þátt í því bæði með fjárframlögum og eins í starfi gegnum margvísleg frjáls félagasamtök. Ég held að það sé ein af áherslunum í þessu frumvarpi sem er sérstakt fagnaðarefni að það er mikilvægt, ekki síst þegar við erum að auka þróunarsamvinnuna jafnörum skrefum og raun ber vitni, að við nýtum þá þekkingu og reynslu sem er til staðar í frjálsu félagasamtökunum, þau tengsl sem þau hafa. Ég held að um það sé góð samstaða á Alþingi og gott að sjá hversu hátt því er gert undir höfði í þessari umfjöllun allri vegna þess að þar höfum við sannarlega bæði tengslanet og þekkingarbrunna til að sækja í í þessari vinnu.

Um gagnrýni hvað varðar friðargæsluna þá verð ég að játa að ég átta mig ekki alveg á hvar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er staddur í þeirri umræðu. Vegna þess að við höfum lagt á það áherslu að starf okkar að friðargæslu eigi að vera hið borgaralega starf, þ.e. að vinna að hjálparstarfi á forsendum þróunarsamvinnu, og það er alveg ljóst að ein af málefnalegu ástæðunum fyrir því að hinn frægi fulltrúi okkar í Írak var kallaður til baka var auðvitað sú að það var eini friðargæsluliðinn sem ekki féll undir skilgreiningar DAC, þ.e. Efnahags- og framfarastofnunarinnar á þróunarsamvinnu. Ég held að það sé einmitt mikilvægt að vista friðargæsluna þarna og undirstrika með því í hvaða tilgangi hún er stunduð og á að vera stunduð. Ég segi það vegna þess að almennt hef ég tekið undir ýmsar efasemdir hv. þingmanns um það að tengja friðargæslu hernaði af einhverju tagi og hef allan fyrirvara á því að gera það. Ég held að einmitt sú ákvörðun, að fara með þeim hætti með friðargæsluna, sé besta staðsetning sem við getum haft á þeirri starfsemi hjá framkvæmdarvaldi okkar og fagna því að þessu sé þannig skipað í því frumvarpi sem ráðherrann kynnti hér. En ég hlakka til að sjá með hvaða hætti utanríkismálanefnd fjallar um málið og að fá tækifæri til að fjalla um það hér þegar það kemur aftur inn í þingið.