135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[12:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það skiptir kannski ekki öllu máli hvort menn kalla athugasemdir okkar veigamiklar eða -litlar. Þær voru efnislegar og aðallega tvíþættar, um stjórn Þróunarsamvinnustofnunar sem er hluti af stærra máli, þ.e. þeirri hugmyndafræði okkar um að þróunarsamvinnumálaflokkurinn eigi að vera algerlega sjálfstæður, hreint faglegur og eigi ekki að blandast saman við pólitíska hagsmunagæslu okkar að öðru leyti á sviði utanríkismála. Þaðan af síður eiga þar að blandast við verkefni sem eru hernaðartengd eða hernaðarlegs eðlis.

Nú er það svo að fyrir þinginu liggur tillaga um að við köllum liðsafla okkar heim frá Afganistan og endurskipuleggjum alla okkar þátttöku í anda nýrra laga um friðargæsluna sem skilgreinir hana sem borgaralega. Það var sú breyting sem Alþingi gerði á frumvarpi sl. vor sem leit öðruvísi út í byrjun. Hvers vegna gerum við þetta? Það er vegna þess að praxísinn er að okkar mati ekki í samræmi við anda laganna um friðargæslu. Hefur hv. þingmaður kynnt sér starfsheiti liðsmanna okkar í Afganistan um þessar mundir? Commander-in-cheef, Deputy Commander, J-1 Officer. Þetta eru titlarnir sem hinir borgaralegu starfsmenn okkar í Afganistan bera á Kabúl-flugvelli. Það er þetta samkrull sem við gagnrýnum. Ég vitnaði í leiðara eins dagblaðanna í morgun þar sem talað er berum orðum um að aukin friðarþátttaka okkar í Afganistan hafi verið kynnt af hálfu forsætisráðherra á vettvangi NATO sem liður í aukinni þátttöku okkar og endurgjaldi á þeim vettvangi fyrir loftrýmiseftirlit þeirra hér. Samkrull borgaralegrar friðargæslu, ef við eigum að taka það alvarlega, varnarverkefna og hernaðarhagsmuna. Við getum tekið viðskiptaþættina inn í þetta líka eða framboðið til öryggisráðsins ef við ætlum að fá atkvæði einhverra Afríkuríkja sem misstíga sig kannski og misnota fé (Forseti hringir.) til þróunarsamvinnu til að kaupa einkaþotur fyrir forsætisráðherra. Eigum við þá að þegja yfir því af því að þeir mundu kannski hætta við að kjósa okkur inn í öryggisráðið, (Forseti hringir.) svo ég nefni dæmi um mikilvægi þess að við höldum þessum hlutum aðgreindum?