135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[12:53]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það segir kannski ekki mikið að aðeins helmingur af framlögum til þróunarsamvinnu fari í gegnum Þróunarsamvinnustofnun eins og stendur. Það er annars vegar vegna þess að til stendur að auka það hlutfall og einnig vegna hins að stór hluti af hinum framlögunum eru einfaldlega reglubundnar greiðslur til stofnana Sameinuðu þjóðanna sem við í sjálfu sér höfum ekki mikið yfir að segja, þannig að við aukum ekki út af fyrir sig aðkomu Alþingis með skipulagsbreytingum hér heima fyrir gagnvart þeim þætti. Það er þá fyrst og fremst friðargæslan, eða sá hluti hennar sem telst vera framlög til þróunarsamvinnu, sem með þessum hætti mætti segja að færðist þá meira undir áhrifavald Alþingis en um hana gilda jú sérstök lög sem Alþingi hefur sett og mótað.

Við höfum fagnað því og tekið undir það að utanríkismálanefnd og Alþingi, í formi ályktunar sem hér er afgreidd, komi að þessum málum, að sjálfsögðu. Það er sömuleiðis tvímælalaust jákvætt að við sækjum um aðild að DAC. En það mun ekki þýða ævarandi tryggingu fyrir því að ekki komi upp viðkvæmar aðstæður og hættur á hagsmunaárekstrum og að stundum þurfi menn að standa í lappirnar og hafa sterkan eldvarnavegg milli mögulegra utanríkispólitískra hagsmuna, atkvæðaveiða eða hvað það nú kann að vera og viðkvæmra aðstæðna í verkefnum á sviði þróunarsamvinnu í löndum þar sem pólitískt ástand er kannski mjög flókið. Við getum nefnt Nígaragúa, þar sem ég og formaður utanríkismálanefndar vorum á dögunum — Svíar hafa farið heim vegna þess að þeir eru ósáttir við pólitíska þróun í landinu, afar viðkvæmar og vandasamar pólitískar aðstæður þar sem engu að síður er verið að vinna að bráðnauðsynlegum verkefnum, að hjálpa einu fátækasta ríki Suður- og Mið-Ameríku. Þá er ákaflega mikilvægt að þróunarsamvinnan sé algerlega sjálfstæð og fagleg og geti varið sig og fríað sig og staðið óháð öllum utanríkispólitískum hagsmunum af hvaða tagi sem þeir (Forseti hringir.) kynnu að vera.