135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[12:57]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hversu langt við komumst með það að fara ofan í saumana á því hvað eru reglubundin framlög, t.d. til stofnana Sameinuðu þjóðanna sem sinna þróunarverkefnum og eru flokkuð sem slíkar greiðslur og síðan eru viðbætur eins og t.d. myndarlegt framlag okkar til UNIFEM, sem er að sjálfsögðu fagnaðarefni og er langt umfram það sem við höfum nokkrar samningsbundnar skyldur til að leggja af mörkum.

Ég er þeirrar skoðunar almennt að það eigi að vera keppikefli okkar að þróa áfram og byggja upp okkar tvíhliða samvinnu. Ég held að það mælist betur fyrir og það sé auðveldara að afla því stuðnings að það séu verkefni sem við ákveðum sjálf, berum ábyrgð á sjálf, höfum eftirlit með og reynum að tryggja að peningarnir séu vel nýttir og til uppbyggilegra hluta sem við viljum leggja áherslu á og höfum verið að færa okkur út í eins og að auka stuðning við uppbyggingu menntunar og heilsugæslu, málefni kvenna og barna og annað í þeim dúr.

Að sjálfsögðu er ég ekki að útiloka að við séum þátttakendur í marghliða verkefnum og greiðum til stofnana, ekki síst á meðan við erum byggja upp getu okkar til að ráðstafa meiri framlögum ár frá ári í gegnum tvíhliða farveginn. Ég held að það eigi að vera markmið okkar að hrygglengjan í þróunarsamvinnu okkar verði á þeim grundvelli.

Varðandi aðgreiningu friðargæslunnar annars vegar og annarra hluta á verksviði utanríkisráðuneytisins og þróunarsamvinnunnar skal ég taka undir það að ef hæstv. utanríkisráðherra gefur mér hér vilyrði fyrir því að við drögum okkur út úr öllum verkefnum á vegum NATO og sinnum eingöngu verkefnum sem slíkum á sjálfstæðum forsendum eða í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna þá er mikill munur þar á og því sem er praxísinn í dag. Kannski hefði maður mátt taka það skýrar fram að það sem við erum að gagnrýna, og þess vegna skoðum við þetta í þessu ljósi, er að við erum á bólakafi í verkefnum sem er stjórnað af NATO, þar sem okkar fólk ber vopn, er inni á átakasvæðum og ber hernaðartitla. Þetta fer mjög illa saman við bæði markmið laganna um íslensku friðargæsluna, (Forseti hringir.) svo að maður tali nú ekki um faglega og uppbyggilega þróunarsamvinnu.