135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[13:00]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil láta það sjónarmið koma fram að það að leggja alla áherslu á tvíhliða samninga Íslands við önnur ríki í þróunarsamvinnu sé pólitík sem annars vegar sé mjög kostnaðarsöm og hins vegar megi færa rök fyrir því að það lúti meira eiginhagsmunamati en það að taka þátt í fjölþjóðlegum verkefnum þar sem alþjóðasamfélagið leggst á eitt við að koma verkefnum í framkvæmd, skipuleggja þau og meta þau.

Það fylgir því mikill kostnaður að fara í verkefni í þróunarlandi, velja þau, skipuleggja þau og fylgja þeim eftir. Ef við ætlum að byggja þetta alfarið upp á tvíhliða samningum setjum við allt of mikið af fjárframlögum okkar í skipulagningu og eftirlit með verkefnum þegar við gætum verið í samstarfi við aðrar þjóðir og þar af leiðandi nýtt fjármuni okkar betur í að aðstoða það fólk sem raunverulega þarf á því að halda. Ég get því ekki tekið undir það að þetta eigi að vera aðaláherslan hjá okkur. Það er hins vegar mikilvægt að við séum í tvíhliða aðstoð, að við fáum reynslu af vettvangi og það byggi upp okkar faglegu reynslu og þekkingu en það þarf bara að vera miklu víðtækara en svo.

Varðandi NATO-verkefnin þá get ég nú ekki gefið þingmanninum þetta loforð vegna þess að ég tel að í ákveðnum tilvikum geti það verið ágætt og mikilvægt að við getum farið með þróunaraðstoð í gegnum slík verkefni (Forseti hringir.) þó að ég taki alveg undir það að meginprinsippið eigi að vera að við séum í verkefnum sem séu kannski fyrst og fremst á vegum Sameinuðu þjóðanna og stofnana þeirra.