135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[13:04]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég gat um áðan og kemur fram í frumvarpinu er gert ráð fyrir að um þessi mál sé fjallað í þeirri áætlun um þróunarsamvinnu sem leggja á fyrir Alþingi annað hvert ár. Eins og ég sagði líka þá geri ég ráð fyrir því að koma með þetta inn í þingið í haust og þá ættu þessi mál að skýrast. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að við þurfum að setja okkur stefnumið í þessu sambandi og í utanríkisráðuneytinu er verið að skoða með hvaða hætti við getum komið okkur upp í þetta hlutfall og þá á svipuðum tíma og aðrar þjóðir hér í kringum okkur.

Það er mikilvægt að um leið og við ákveðum slíkt sé allur lagaramminn og umgjörðin utan um þróunarsamvinnuna með þeim hætti að pólitísk aðkoma af hálfu Alþingis að stefnumótun eða stefnumörkun og eftirliti með þessum fjármunum sé tryggð, en á það hefur verulega skort á umliðnum árum.