135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[13:06]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. utanríkisráðherra segir að við fáum hér inn áætlun í haust og þar verði fjallað um þessi mál. Þar verði þá væntanlega tölur sem komi frá ráðherra um framlögin og að hæstv. ráðherra stefni að því að við verðum búin að ná þessu takmarki, þ.e. 0,7%, á svipuðum tíma, svo ég vitni nú orðrétt beint í ráðherrann, og önnur Norðurlönd.

En nú er það þannig, virðulegur forseti, að önnur Norðurlönd, þ.e. þrjú þeirra, eru nú þegar komin upp í þetta hlutfall, Danmörk, Noregur og Svíþjóð. Það er klárt mál. Við erum ekkert nálægt því. Við erum að trappa okkur í áttina en við erum ekki nálægt því á þessari stundu, þannig að við erum ekkert á svipuðum tíma í því. Finnland hefur líka ákveðið og komið því á framfæri opinberlega að árið 2015 verði þeir komnir upp í 0,7%. Ég vil því gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé þá réttur skilningur hjá mér, miðað við orð hæstv. ráðherra, að við megum eiga von á því í haust að sjá töluna 0,7% árið 2015? Fyrst hæstv. ráðherra orðar það á þann veg að við eigum að stefna að því að vera á svipuðum tíma og önnur Norðurlönd, en þrjú þeirra eru nú farin fram úr okkur og eitt á leiðinni, við sitjum eftir.

Ég spyr því hvort það sé réttur skilningur hjá mér að í áætluninni sem kemur frá ráðherra í haust munum við sjá þessa tölu, 0,7%. Munum við sjá þessa langþráðu tölu árið 2015 í þeirri áætlun?