135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[13:47]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þingmönnum vinstri grænna fyrir að taka upp umræðu um hið mikla verkefni sem Afganistan er í samfélagi þjóðanna þótt ég sé öldungis ósammála þeirri tillögu sem þeir flytja hér um að fela utanríkisráðherra að kalla heim íslenska friðargæsluliða í Afganistan. Mér finnst reyndar dálítið erfitt að skilja þessa afstöðu þeirra sem hefur komið fram áður í umræðum um þessi mál á Alþingi.

Í því sambandi hefur verið vísað til laganna um friðargæsluna sem tóku gildi á síðasta ári en vinstri grænir hafa talið að 1. gr. þeirra laga takmarki mjög verkefnaval friðargæslunnar og því er lýst í þeirri þingsályktun sem þeir flytja hér. Það gætir ákveðins misskilnings varðandi þær takmarkanir sem þeir telja vera í 1. gr. Greinin er almennur rammi um starfið og tilgreinir sem dæmi ákveðnar tegundir verkefna sem Íslendingar geti staðið að.

Það er sérstaklega gert ráð fyrir því í lögunum að sérfræðingar okkar geti starfað innan herkerfis sem hluti af liði þeirrar alþjóðastofnunar sem sér um viðkomandi verkefni. Hvort sem okkur finnst það síðan til bóta eða ekki þá er það samt sem áður þannig og er gert ráð fyrir því í lögunum.

Varðandi þátttöku okkar í Afganistan þá tökum við þátt í alþjóðlegum öryggissveitum sem starfa alfarið á grundvelli umboðs öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og í þessum sveitum, öryggissveitum, taka 37 þjóðir þátt, þar af allar Norðurlandaþjóðirnar og Sviss, Ástralía og Nýja Sjáland, svo dæmi séu tekin. Þetta er því miklu víðtækara verkefni en svo að það snúi einvörðungu að NATO. Þessar sveitir starfa reyndar undir stjórn NATO og allar NATO-þjóðirnar leggja til verkefnisins bæði mannafla, fjármagn og uppbyggingaraðstoð.

Sameinuðu þjóðirnar hafa ítrekað framlengt umboð þessara sveita og aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, sagði nú síðast í nóvember að nauðsynlegt væri að þessar sveitir héldu áfram að tryggja öryggi Afganistan og skapa grundvöll fyrir uppbyggingu. Hann skoraði á þær þjóðir sem þar leggja af mörkum að gefast ekki upp við þetta verkefni þótt það sé sannarlega erfitt og áhættusamt. Ég vitna einnig til þess að Joschka Fischer, sem var forustumaður græningja í Þýskalandi og utanríkisráðherra í þýsku ríkisstjórninni, tók í sama streng í nýlegri grein í Morgunblaðinu og eggjaði raunar þjóðir lögeggjan að gefast ekki upp við þetta erfiða en mikilvæga verkefni.

Það er líka mikill misskilningur að nágrannaþjóðir okkar, Noregur og Danmörk, séu að draga úr stuðningi sínum eða séu tvístígandi varðandi stuðninginn við verkefnið. Þvert á móti kynnti Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, í byrjun febrúar stóraukinn stuðning norskra stjórnvalda og Stórþingið hefur einróma staðið á bak við ákvarðanir um þátttöku liðsafla Norðmanna í Afganistan. Mér er ekki kunnugt um að slík tillaga hafi komið fram í norska þinginu eins og vinstri grænir flytja hér. Mér er heldur ekki kunnugt um að slík tillaga hafi komið fram í sænska þinginu. Ég hef ekki skoðað nákvæmlega danska þingið. Þannig að það hefur verið mjög einróma stuðningur í þjóðþingum þessara landa, líka frá flokkssystkinum vinstri grænna, um að gefast ekki upp við þetta verkefni.

Í þessu sambandi get ég nefnt að í gær var haldinn í Stokkhólmi fundur ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneyta allra Norðurlanda með þátttöku utanríkisráðherra Afganistans. Fundurinn var haldinn vegna þess hve ríkur almennur vilji er til orðinn fyrir því að mynda samnorræna áætlun fyrir Afganistan um þróunarsamvinnu og friðargæslu. Á fundinum kom fram eindregin ósk utanríkisráðherra Afganistans um samnorræna starfsemi í landinu vegna þess að Norðurlöndin standi fyrir mannréttindi og bætta stjórnarhætti og norrænt merki í landinu styðji uppbyggingu og skapi traust almennings í Afganistan.

Það breytir ekki því að þetta er undir stjórn NATO, hin alþjóðlega sveit og sú starfsemi sem þarna fer fram. En það er algjört sammæli um það á öllum Norðurlöndunum að leggja þessum sveitum lið. Ég held að það sé þvert á alla flokka á Norðurlöndunum þannig að það má segja að vinstri grænir hér á Íslandi séu algjörlega að skera sig úr hvað þetta verkefni varðar.

Við njótum ákveðinnar sérstöðu í þessu verkefni eins og kannski ýmsum öðrum vegna þess að við erum herlaus þjóð en við höfum engu að síður tekið þátt í verkefnum eins og í Kosovo, í Makedóníu og núna í Afganistan við ágætan orðstír og við höfum lagt það fram af mörkum sem við getum sem er fyrst og fremst á sviði þróunarsamvinnu, á sviði ýmissar uppbyggingar verkefna, stjórnsýsluverkefna, menntaverkefna o.s.frv.

Mér þykir það mjög leitt að heyra hér gefið í skyn að starf okkar þar og verkefni feli í sér mannréttindabrot og brot á alþjóðasamningum. Þetta verkefni grundvallast alfarið á umboði Sameinuðu þjóðanna og það hefur ítrekað verið endurnýjað og mikilvægi þess áréttað.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að mannréttindi voru algjörlega fyrir borð borin í Afganistan á valdatíma talibana. En þrátt fyrir að nú séu átök í Afganistan, þar séu framin hryðjuverk og ástandið sé erfitt og það er líka algjörlega ljóst að þetta verkefni mun taka mörg ár, þá geta menn ekki bakkað út úr þessu verkefni sisona og skilið samfélagið eftir í sárum. Þetta mun taka mörg ár en lífsgæði hafa batnað stórlega. Um fimm milljónir flóttamanna hafa snúið til síns heima á undanförnum árum. Það er unnið að því, þó að það vanti enn þá mikið upp á, að þetta samfélag tryggi konum full réttindi. Þá er samt unnið að því að stúlkur njóti menntunar og grundvallarlífsgæði hafa aukist í landinu.

Ég hef ákveðið að heimsækja Afganistan nú áður en langt um líður til þess að fá betri sýn á starfið þar, bæði starfið á vegum ISAF og annarra alþjóðastofnana og ég tel raunar mikilvægt að utanríkismálanefnd sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon á sæti í geri slíkt hið sama hið fyrsta því með því að fara á vettvang og kynna sér málin án fordóma, þá er auðveldara að ræða málefnalega hvernig Ísland geti best komið að því uppbyggingarstarfi sem þar fer fram. Við sinnum mjög mikilvægu uppbyggingarstarfi í ýmsum héruðum í Afganistan og við getum örugglega gert betur og meira í þeim efnum.

Í ráðuneytinu er unnið að langtímastefnumótun um stuðning Íslands við friðar- og uppbyggingarstarf alþjóðasamfélagsins í Afganistan og þar er áherslan fyrst og fremst á framlög á sviði mannréttinda, þróunarsamvinnu og uppbyggingu efnahags og samfélags í landinu og þar erum við fyrst og fremst að tala um verkefni á sviði heilsugæslu, menntunar og fræðslu. Það er gert ráð fyrir því að þau verkefni verði í auknum mæli hluti af norrænni samvinnu sem er þá framkvæmd í samstarfi við ýmsar alþjóðastofnanir. Ég nefndi NATO og auðvitað get ég líka nefnt Sameinuðu þjóðirnar, UNIFEM, og ýmis fleiri og frjáls félagasamtök.

Ég tel þess vegna að við eigum fullt erindi í Afganistan og við eigum að leggja þessu samfélagi lið og við eigum að gera það í samstarfi við aðrar þjóðir. Við eigum að gera það í samstarfi við Norðurlandaþjóðirnar og undir þeim formerkjum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa markað í landinu.