135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[14:02]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá þingsályktunartillögu sem hér er flutt. Ég tel nauðsynlegt að Alþingi Íslendinga álykti í þá veru að kalla heim íslenska friðargæsluliðið í Afganistan.

Hæstv. utanríkisráðherra vitnaði annars vegar til Ban Ki-moon og hins vegar Joschka Fischer um það að ekki mætti gefast upp við þetta verkefni. Það væri nauðsynlegt að halda því áfram. Lengi vel hélt ég að hæstv. utanríkisráðherra ætlaði að láta þar við sitja, að vitna í þessa erlendu aðila varðandi afstöðuna til málsins. En svo fór að lokum að í andsvari sagði hæstv. utanríkisráðherra að það væri ábyrgðarlaust að draga sig út úr verkefninu. Það er mat og skoðun hæstv. utanríkisráðherra að við eigum hvergi að hvika og halda áfram í því sem NATO gerir eða ætli að gera í Afganistan.

Ég tel að það hafi verið farið rangt að og að NATO hafi tekið ranga ákvörðun þegar ákveðið var að fara með her inn í Afganistan. Það var andstætt þeim tilgangi sem NATO var stofnað til að vinna að, sem varnarbandalags en ekki til að fara með her út fyrir landamæri og í annað land, sem kemur í sjálfu sér ekki NATO við. Það er eitt atriði.

Hæstv. utanríkisráðherra talaði um samnorræna áætlun um Afganistan. Til hvers, samnorræna áætlun um hvað? Þegar menn sendu á sínum tíma lið til Afganistans og við játuðumst undir það innan Atlantshafsbandalagsins að taka þátt í því sem þar er um að ræða, hvað var þá verið að tala um? Þeir 37 þúsund hermenn sem nú eru í Kabúl, til hvers voru þeir sendir, friðargæsluliðar og hermenn? Þeir voru sendir þangað í þeirri trú að þeir þyrftu ekki að berjast og ættu að fylgjast með uppbyggingu landsins og þjálfun afgönsku lögreglunnar og hersins. Það var verkefnið og viðmiðunin í upphafi.

Í dag er staðreyndin sú að það er engin hernaðaráætlun til um áframhaldandi hernám Afganistans. Engin. Hún er ekki til. Menn hafa ekki með neina áætlun um hvernig eigi að ljúka þessu. Hvernig eigi að koma sér burtu frá þessu landi.

Ég get ekki séð annað, þegar mannkynssagan er lesin, en að endurtaka eigi reynslu Kína-Gordons af Khartoum og Westmorelands hershöfðingja í Víetnam. Mér virðist sem stjórnmálamenn sem kunna ekki lengur mannkynssöguna nægilega vel senda fólk til að berjast fyrir fjarlæg og óskilgreind markmið. Mér finnst það rangt. Mér finnst það ekki ganga. Mér finnst það eiga að vera viðfangsefni okkar Íslendinga að reyna að leiða vini okkar í Atlantshafsbandalaginu á aðrar brautir. Þetta er ekki okkar verkefni. Þetta hefur ekki tekist og þetta mun ekki ganga.

Sá virti dálkahöfundur Sunday Times í Bretlandi Simon Jenkins segir í blaðinu þann 3. febrúar síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Kabúl er eins og Saigon í lok Víetnamstríðsins; fjöldi flóttamanna, spilling þar sem yfirstéttin fer um í skotheldum bifreiðum. Ímyndarfræðingar í baráttu við sannleikann tala fyrst og fremst um fjölda fallinna óvina til að láta líta svo út sem sigur sé að vinnast með sama hætti og William Westmoreland, hershöfðingi Bandaríkjanna, gerði á sínum tíma í Víetnam.“

Með þætti okkar í þessu ferli lýsum við yfir stuðningi við núverandi stjórnvöld í Afganistan. Við lýsum yfir stuðningi við Hamid Karzai sem vann áður hjá bandarísku fjölþjóðafyrirtæki. Það er varla hægt að halda því fram að Hamid Karzai sé frjálslyndur lýðræðislegur stjórnmálamaður. Hann velur að geðþótta sveitar- og fylkisstjóra, oft stríðsherra sem njóta afraksturs ópíumframleiðslu í landinu, sem eru einu öruggu tekjur landsins í augnablikinu og hafa verið í langan tíma.

Við erum að tala um land sem heitir Afganistan. Það byggja fjölmargar þjóðir. Þar búa Pastúnar, Balúkar, Tadsjikar, Hasarar og Úsbekar. Við erum að tala um þjóð sem staðið hefur í styrjöld áratugum saman, þar sem ríkisstjórn hefur tekið við af ríkisstjórn. Það er kannski kaldhæðni örlaganna að sú ríkisstjórn sem Bandaríkjamenn börðust hvað harðast gegn og stóðu að uppbyggingu og þjálfun stríðsmanna til að velta úr sessi, þ.e. ríkisstjórn Najibullahs, er sennilega sú frjálslyndasta sem hefur verið í Kabúl, a.m.k. svo nokkrum áratugum skiptir þótt ég viðurkenni að ég vildi þá ríkisstjórn að sjálfsögðu feiga. En þannig geta hlutirnir verið og það ber að viðurkenna þær staðreyndir sem sagan segir okkur.

Ég sé ekki að það geti verið réttlætanlegt, þegar hæstv. utanríkisráðherra rekur tölur um mannfall í þeirri styrjöld sem á sér stað í Afganistan og eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði nú raunar líka, að segja ábyrgðarlaust að draga sig út úr verkefninu. Ég get ekki skilið hvað réttlætir, þegar litið er til heildarhagsmuna, markmiðslausa eða markmiðalitla veru í Afganistan. Ég sé ekki að það sé með nokkru móti réttlætanlegt að senda ungt fólk frá Evrópu og Norður-Ameríku til þess að deyja fyrir slíkt málstaðarleysi.